Aðgerðaáætlun um afnám fjármagnshafta hefur nú litið dagsins ljós. Um er að ræða heildstæða lausn sem setur hagsmuni almennings í forgang og byggjast aðgerðirnar upp á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði.
Gríðarleg vinna hefur farið í undirbúning á þessu stóra og mikilvæga máli, sem skiptir öll heimili landsins miklu máli. Það er nú svo að allir Íslendingar tóku á sig verulegan skell í efnahagshruninu og þungar byrðar voru lagðar á landsmenn alla. Þess vegna er afar ánægjulegt að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur nú kynnt aðgerðir, sem eiga að tryggja að sú kollsteypa sem allir urðu fyrir, endurtaki sig ekki. Það verða ekki lagðar frekari byrðar á landsmenn vegna hafta.
Aðeins um tölur
Samkvæmt aðgerðaáætluninni hafa slitabú gömlu bankanna tvo möguleika til að koma sér út úr höftum. Annars vegar er um að ræða stöðugleikaframlag, en þá hafa slitabúin frest til ársloka 2015 til að uppfylla stöðugleikaskilyrðin. Ef slitabúin uppfylla ekki skilyrðin fyrir árslok verður lagður á þau stöðugleikaskattur. Skatturinn nemur 39% af heildareignum slitabúana og álagning fer fram hinn 15. apríl 2016. Skatturinn skal vera að fullu greiddur um mitt sama ár. Sama hvor leiðin verður farin er niðurstaðan sú sama fyrir þjóðarbúið: Losun hafta hefur ekki neikvæð áhrif á efnahagslífið og lífskjör almennings í landinu.
Áhrif á ríkissjóð
Nauðsynlegt er að lækka skuldir ríkissjóðs og ná niður þeim gríðarlega vaxtakostnaði sem greiða þarf á hverju ári. Vaxtagjöld ríkissjóðs fyrir þetta ár eru 77 milljarðar. Þessi fjárlagaliður er einn stærsti útgjaldaliður fjárlaga. Batnandi hagur ríkissjóðs mun birtast í batnandi hag almennings í landinu. Með lægri skuldum mun svigrúm aukast í ríkisfjármálum. Það getur orðið til þess að við höfum meiri möguleika en áður til að byggja upp okkar mikilvægu innviði og bæta grunnþjónustu samfélagsins. Aðalatriðið er að það verði gert í samræmi við ábyrga ríkisfjármálastefnu. Það er það sem skiptir öllu máli fyrir Íslendinga.
Svigrúmið sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði einn flokksformanna um í kosningabaráttunni árið 2015 er svo sannarlega til staðar. Það er 850 milljarðar.
Þórunn Egilsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. júní 2015.