Categories
Greinar

Vel gert!

Deila grein

16/06/2015

Vel gert!

Silja-Dogg-mynd01-vefPállGeir H. Haarde blessaði Ísland í frægri ræðu í sjónvarpssal þann 6. október árið 2008. Í ræðunni lýsti hann þeim efnahagserfiðleikum sem Ísland stóð frammi fyrir. Sama dag lagði hann fram frumvarp að neyðarlögum á Alþingi. Atburðarásin sem eftir fylgdi var ævintýraleg. Á Austurvelli loguðu eldar. Uppreisn fólksins og bylting. Á þessum miklu umbrotatímum í sögu þjóðarinnar tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við sem formaður Framsóknarflokksins.

Framsókn er flokkur heimilanna
Eftir að Geir H. Haarde baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 26. janúar 2009 mynduðu vinstri flokkarnir minnihlutastjórn sem tók við völdum sex dögum síðar, þann 1. febrúar, og varði Framsóknarflokkurinn hana vantrausti. Framsókn setti fram þrjú skilyrði fyrir því að verja ríkisstjórnina falli. Þau voru að efna til stjórnlagaþings síðsumars 2009, að boðað yrði til þingkosninga í síðasta lagi 25. apríl 2009 og síðast en ekki síst að ráðist verði í miklar aðgerðir til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu. Síðasta loforðið sveik vinstri stjórnin. Skjaldborginni var slegið upp í kringum fjármálafyrirtækin, ekki heimilin. Íslenskum heimilum blæddi á meðan. Hlegið var að tillögum Framsóknar um 20% niðurfærslu stökkbreyttra húsnæðislána. Fyrirtækin réru lífróður og fólk missti vinnuna. Kaupmáttarskerðingin var gríðarleg og eignir brunnu upp. Það má ekki gleyma því að sumir þessara aðila hafa aldrei beðið þess bætur.

Þrennan
Vinstri stjórnin vildi samþykkja Icesave-samningana sem hefðu orðið til þess að núverandi og næstu kynslóðir Íslendinga tækju á sig gríðarlegar fjárhagslegar byrðar í erlendum gjaldeyri sem þjóðarbúið réð engan veginn við. Framsókn barðist gegn því og hafði sigur. Það var svo sannarlega kosið til þings að nýju vorið 2013 og þá vann Framsókn kosningasigur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur leitt ríkisstjórnina sl. tvö ár með góðum árangri. Húsnæðislán heimilanna hafa verið leiðrétt og nú liggur fyrir áætlun um losun hafta. Forystumenn Samfylkingarinnar létu hafa eftir sér að þeir teldu nánast ómögulegt að afnema höftin án upptöku evru. Svo er ekki. Sú áætlun sem nú liggur fyrir er vel unnin og flestir sem hafa tjáð sig um hana hafa lýst ánægju sinni og telja hana betri en menn þorðu að vona.

Lækka skuldir ríkissjóðs
Ríkir almannahagsmunir liggja að baki afnámsáætlun stjórnvalda en hún byggist á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði. Lausnin byggist á jafnræði, virðir lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Hún stuðlar jafnframt að því að gengi krónunnar endurspegli raunhagkerfið eftir losun hafta. Í dag er ríkissjóður að greiða um 80 milljarða í vexti á ári en með þessari aðgerð gæti vaxtagreiðsla ríkisins lækkað um ca 35 til 40 milljarða sem samsvarar um 75% af rekstrarkostnaði Landspítalans.

Haftaafnámsferlið er grundvallað á hagsmunum heimilanna og fyrirtækja enda er það skilyrði aðgerðanna að raunhagkerfið taki ekki út frekari aðlögun en þegar er orðin. Svigrúmið er til staðar og það verður nýtt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, öllum landsmönnum til heilla. Nánari upplýsingar um afnám hafta má finna á vef fjármálaráðuneytisins.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í DV 12. júní 2015.