Categories
Greinar

Hugmynd sett í framkvæmd – stóru orðin standa

Deila grein

16/06/2015

Hugmynd sett í framkvæmd – stóru orðin standa

Hjálmar Bogi HafliðasonÞað er draumur hvers manns að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Öll fáum við hugmyndir sem okkur langar til að verði að veruleika en aðeins brot af öllum þeim birtist okkur í raunveruleikanum. Allir stjórnmálamenn eiga sér drauma og setja þá fram í von um fylgi við málstað sinn. Eitt er að setja fram hugmynd og eiga drauma en hitt að sjá málstað sinn verða að veruleika.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum fyrir tveimur árum og ljóst að margt hefur áunnist á þeim tíma, unnið að öðru og ýmislegt sem betur mátti fara. Það breytir því ekki að einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar hefur verið hrint í framkvæmd og til stendur losun gjaldeyrishafta. Slíkt var draumur og hugmyndir margra stjórnmálamanna.

Stór orð um losun gjaldeyrishafta féllu fyrir alþingiskosningar árið 2013. Þau orð standa. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur komið hugmyndum margra stjórnmálamanna og draum annarra í framkvæmd. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hyggst verja hagsmuni þjóðarinnar með hagsmuni allra að leiðarljósi en ekki sérhagsmuni. Hótun um stöðugleikaskatt tryggir stöðu stjórnvalda og þrýstir á kröfuhafa að fallast á skilyrði stjórnvalda. Þessi leið er skynsamleg og leiðir til jafnvægis í kerfinu. Leið sem á sér ekki fordæmi í samtímanum og út fyrir hefðbundnar leiðir í efnahagsmálum. Sigmundur Davíð forsætisráðherra reynist því maður orða sinna, stóru orðanna sem aðra stjórnmálamenn dreymdi og höfðu hugmyndir um. Stóru orðin standa sama hvaða skoðun og viðhorf fólk hefur.

Þessi áætlun felur í sér mikil tímamót og eftir mikla vinnu forsætis- og fjármálaráðuneytis, Seðlabanka Íslands og ýmissa sérfræðinga hefur henni verið hrint í framkvæmd.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. júní 2015.