Categories
Greinar

Áfram íslenska

Deila grein

08/06/2019

Áfram íslenska

Þings­álykt­un­ar­til­laga um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál hér á landi var samþykkt með með 55 sam­hljóða at­kvæðum á Alþingi í gær. Það er sér­lega gleðilegt að finna þann meðbyr sem er með til­lög­unni bæði á þing­inu og úti í sam­fé­lag­inu. Það er póli­tísk samstaða um að leggja í veg­ferð til að vekja sem flesta til vit­und­ar um mik­il­vægi þess að við höld­um áfram að tala ís­lensku í þessu landi. Við eig­um að nota okk­ar lit­ríka og lif­andi tungu­mál til allra hluta, hvort sem er í starfi eða leik.

Tungu­mál sem þró­ast
Við eig­um ekki að vera feim­in við ís­lensk­una, hún er okk­ar. Hún hef­ur þjónað Íslend­ing­um í nær 1150 ár og hún hef­ur þraukað all­an þenn­an tíma ein­mitt af því hún hef­ur óspart verið notuð. Þannig hef­ur hún þró­ast en ekki staðnað. Hún á ekki heima á safni, hún er tæki sem við eig­um að nota alla daga, all­an dag­inn til hvers kyns sam­skipta. Við eig­um að skapa, skrifa, lesa og syngja á henni – og kannski það sem er mik­il­væg­ast: við eig­um að leika okk­ur með hana.

Íslenska á öll­um sviðum
Meg­in­mark­mið þings­álykt­un­ar­inn­ar sem nú hef­ur verið samþykkt, eru þau að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Í álykt­un­inni eru til­tekn­ar 22 aðgerðir til að ná þess­um mark­miðum. Þær ná til skól­anna, inn á heim­il­in, inn í snjall­tæk­in, til allra list­greina, út í at­vinnu­lífið, inn í stjórn­sýsl­una, til ferðaþjón­ust­unn­ar, inn í fjöl­miðlana, til bóka­út­gáf­unn­ar, inn á bóka­söfn­in, inn í tölvu­heim­inn og út á göt­urn­ar. Við vilj­um ná til allra, hvar sem þeir eru.

Fjölþætt­ar aðgerðir
Nokkr­um aðgerðum hef­ur þegar verið ýtt úr vör og má þar nefna stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku en með því að end­ur­greiða allt að fjórðung beins kostnaðar vegna út­gáf­unn­ar er mynd­ar­lega stutt við aukið fram­boð á ís­lensku efni. Þá hef­ur verið sett­ur á lagg­irn­ar nýr sjóður til að styrkja sér­stak­lega út­gáfu barna- og ung­menna­bóka á ís­lensku en óum­deilt er að sár­lega vant­ar meira fram­boð af bók­um sem hæfa yngri les­end­um. Ný­lega var út­hlutað í fyrsta sinn úr þess­um sjóði til 20 verk­efna. Þetta eru bæk­ur af ólík­um toga og fyr­ir ýms­an ald­ur. Sjóður­inn sjálf­ur fékk nafnið Auður sem þótti vel hæfa, enda er hon­um ætlað að minna á raun­veru­leg­an fjár­sjóð þjóðar­inn­ar, bók­mennt­irn­ar. Þjóðarsátt­máli um læsi er enn í fullu gildi og verður fram haldið af þunga. Auk­in áhersla verður lögð á fræðslu til for­eldra og upp­al­enda ungra barna um mik­il­vægi þess að leggja grunn að málþroska og læsi barna strax í bernsku. Þegar er búið að leggja upp með áætl­un um að auka nýliðun í kenn­ara­stétt m.a. með launuðu starfs­námi og náms­styrkj­um í starfstengdri leiðsögn. Fleiri til­lög­ur sem snerta kenn­ara­nám og starfsþróun kenn­ara eru í burðarliðnum. Þá liggja fyr­ir til­lög­ur um stuðning við einka­rekna fjöl­miðla um miðlun efn­is á ís­lensku. Við ætl­um einnig að huga sér­stak­lega að þeim sís­tækk­andi hópi sem lær­ir ís­lensku sem annað mál, bæði skóla­börn­um og full­orðnum inn­flytj­end­um og finna leiðir til að auðvelda þeim að ná tök­um á tungu­mál­inu. Þá leggj­um við mikla áherslu á notk­un ís­lensku í hinum skap­andi grein­um. Íslensk­an er list­ræn, sama í hvaða formi list­in birt­ist.

Altalandi snjall­tæki
Til að tryggja að ís­lensk­an verði gjald­geng í sta­f­ræn­um heimi, ra­f­ræn­um sam­skipt­um og upp­lýs­inga­vinnslu sem bygg­ist á tölvu- og fjar­skipta­tækni er nú unnið eft­ir ver­káætl­un­inni Mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Í því felst að þróa og byggja upp tækni­lega innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til þess að brúa bil milli tal­máls og búnaðar, svo sem tal­greini, tal­gervil, þýðing­ar­vél og mál­rýni/​leiðrétt­ing­ar­for­rit. Það fylg­ir því nokk­ur fyr­ir­höfn að til­heyra fá­mennri þjóð sem tal­ar sitt eigið tungu­mál en við ætl­um ekki að verða eft­ir­bát­ar annarra sem geta notað sitt mál í sam­skipt­um við tölv­ur og snjall­tæki framtíðar­inn­ar. Sjálf­seign­ar­stofn­un­in Al­mannaróm­ur hef­ur verið feng­in til að halda utan um þetta risa­vaxna verk­efni sem þegar er farið af stað og er full­fjár­magnað.

All­ir leggja sitt af mörk­um
Ég þakka þær fjöl­mörgu ábend­ing­ar sem borist hafa við þings­álykt­un­ar­til­lög­una í ferli henn­ar í þing­inu, þær gagn­legu um­sagn­ir sem bár­ust og þá góðu um­fjöll­un sem málið fékk fengið í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd. Við höf­um hafið ákveðna veg­ferð og þær aðgerðir sem lagðar eru til snerta velflest svið þjóðfé­lags­ins. Í þessu mik­il­væga máli þurfa all­ir að leggja sitt af mörk­um: stofn­an­ir, at­vinnu­líf og fé­laga­sam­tök – og við öll. Við get­um, hvert og eitt okk­ar, tekið þátt í að þróa tungu­málið okk­ar, móta það og nýta á skap­andi hátt. Það eru sam­eig­in­leg­ir hags­mun­ir okk­ar allra að ís­lensk­an dafni og þró­ist svo hún megi áfram þjóna okk­ur og gleðja alla daga.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2019.