Categories
Greinar

Aldrei fór ég suður

Deila grein

08/04/2022

Aldrei fór ég suður

Við getum örugglega öll verið sammála um mikilvægi þess að um allt land séu blómlegar byggðir með hamingjusömum íbúum. Á landsbyggðinni eru starfandi öflug fyrirtæki sem skapa tekjur inn í þjóðarbúið. Lífið á landsbyggðinni er allskonar og kallar á mismunandi nálganir. En ekkert gerist af sjálfu sér, svo við getum haldið öflugum byggðum allt í kringum landið er nauðsynlegt að hafa raunhæfa byggðaáætlun.

Hvað er byggðaáætlun?

Byggðaáætlun leggur grunn að aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði hvað varðar húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, fjarskipta, menntunar og jafnari tækifæri til atvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Með byggðaáætlun má lesa stefna stjórnvalda hverju sinni í byggðamálum. Er hún samhæfing við aðra stefnumótun og áætlunargerð hins opinbera og samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök. Samvinna er lykilinn í að viðhalda sjálfbærni byggða um land allt.

Innviðaráðaherra hefur lagt fram á Alþingi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Byggðaáætlunin er lögð til grundvallar við gerð fjárlaga og í henni má finna metnaðarfull markmið að því marki að landsbyggðin vaxi og dafni.

Heimsmarkmiðin í byggðaáætlun

Sú byggðastefna sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi styðst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem er mannkyn, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Sem leiða okkur að aðalinntakinu sem er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Það er þess vegna sem þau falla svo sérstaklega vel við byggðaáætlun. Því það er mikilvægt að þessar stoðir séu virtar sem leiðarljós til að nálgast jafnrétti til búsetu út frá kröfum okkar og viðmiðum við þau byggðarlög sem við berum okkur saman við.

Vegvísir

Að lokum langaði mig að koma inn á sérstaklega skemmtilega nýjung. En fylgjast má með metnaðarfullum markmiðum íslenskra stjórnvalda í byggða- fjarskipta og samgönguáætlunum á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af innviðaráðuneytinu.  Vefurinn er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingarvefur þar sem hægt er að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri verkefna og árangursmælikvarða.  

Á vefnum er hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu, eða aðgerðir byggðaáætlunar eftir landshlutum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Fyrir áhugafólk um stöðu á  byggðastefnu og aðgerða stjórnvalda í þeim efnum er upplagt að nýta sér þennan vef.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á bb.is 8. apríl 2022.