Categories
Greinar

Allir á mölina

Deila grein

28/02/2015

Allir á mölina

Silja-Dogg-mynd01-vefStundum er gott að láta sig dreyma. Ég sé til dæmis fyrir mér blómlegar byggðir um land allt, hamingjusamt fólk sem hefur nóg að sýsla, framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, fyrirtaks vegi og flugvelli, þriggja fasa rafmagn fyrir alla og ljósleiðaranet hringinn í kringum landið, bryggjurnar iða af lífi og í sveitum landsins framleiðum við heilnæm matvæli fyrir alla Íslendinga og erum auk þess farin að stunda umfangsmikinn útflutning á grænmeti, kjöti og fiski þar sem við framleiðum miklu meira en við getum sjálf torgað. Ávaxtarækt í upphituðum gróðurhúsum er líka langt á veg kominn. Íslenskir bananar – umm, já takk!

Fólk fer þangað sem störf er að finna
Það er ekki hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að of stór hluti þjóðarinnar búi á sama landshorninu. Til að nýta öll landsins gæði, til sjávar og sveita, verður fólk að búa sem víðast. Skilvirk byggðastefna er nauðsynleg til að hægt sé að byggja upp og nýta auðlindir landsins. Liður í skilvirkri byggðastefnu eru sköpun atvinnutækifæra um land allt; bæði færsla opinberra starfa frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar og stuðningur við annars konar atvinnuuppbyggingu. Norðmenn hafa rekið mjög öfluga byggðastefnu um árabil og með henni náð að snúa byggðaþróun við í Noregi. Við eigum að horfa til Norðmanna og vera óhrædd við að nýta þær leiðir sem bestan árangur hafa borið.

Sameiginilegir hagsmunir
Fjölbreytt atvinnulíf um land allt ætti að vera sameiginlegt markmið okka allra. Fólkið fer þangað sem vinnu er að fá. Þar sem atvinnutækfærin eru, þar er jafnframt þjónusta og þá erum við komin með eftirsóknarvert byggðalag. Á undanförnum árum hefur opinberum störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en fækkað á landsbyggðinni. Í ljósi neiðkvæðrar byggðaþróunar og þeirra sameiginlegu hagsmuna okkar að snúa henni við, þá liggur beint við að spyrja eftirfarandi spurningar: Hvers vegna er umræðan svo hávær þegar örfá störf, hlutfallslega, hverfa af höfuðborgarsvæðinu en minna heyrist þegar störf eru færð frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins?

Meira um Fiskistofu
Fyrir nokkrum mánuðum kynnti sjávarútvegsráðherra fyrirhugaðan flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Um var að ræða 15-20 störf og flutningurinn átti að eiga sér stað á löngum tíma. Gert var ráð fyrir að höfuðstöðvar Fiskistofu yrðu komnar til Akureyrar fyrir 1. júlí 2015 og að flutningi lyki að öllu leyti fyrir 1. janúar 2017. Hugmyndin með því að flytja starfsemina á svo löngum tíma var m.a. að halda þekkingunni innan stofnunarinnar, gefa mönnum aðlögunartíma en sýnt þykir að rekstur stofnunarinnar er hagkvæmari fyrir norðan en sunnan.

Jón og séra Jón
Á svipuðum tíma misstu 10 manns við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Lítið heyrðist um það mál í fjölmiðlum. Nokkur opinber störf hafa horfið á síðustu misserum frá Höfn. Ekki orð í fjölmiðlum. Það þarf víst ekki að útskýra það fyrir lesendum að atvinnutækifæri eru talsvert fleiri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Fiskistofa er staðsett (þ.e. ef menn geta alls ekki hugsað sér að flytja norður á Akureyri) en til dæmis á Höfn eða á Hvanneyri.

Forréttindi að búa á landsbyggðinni
Mér þótti umræðan um Fiskistofu skrítin. Það er ekki refsing að búa landsbyggðinni, heldur forréttindi. Við getum deilt um aðferðafræði flutnings opinberra stofnana. En það er óumdeilanlega hagur okkar allra að landinu sé öllu haldið í byggð. Liður í því er að byggja upp grunnþjónustu, fjarskipti, samgöngur og síðast en ekki síst, flytja opinber störf frá höfuðborg til landsbyggðarinnar samhliða því að skapa önnur atvinnutækifæri um land allt.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í dv.is 26. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.