Categories
Greinar

Ellin er þyrnikóróna

Deila grein

01/03/2015

Ellin er þyrnikóróna

Silja-Dogg-mynd01-vef… og æskan rósabeður, segir máltækið. Það verður hlutskipti flestra að eldast og þjóðin eldist hratt. Stefna stjórnvalda er sú að fólk geti búið eins lengi heima hjá sér og mögulegt er og áherslan hefur því verið lögð á aukna heimaþjónustu. En sumir þurfa meiri umönnun og geta ekki verið heima hjá sér af ýmsum orsökum.

Fjármagn nýtt í annað
Í hinum fullkomna heimi ættu allir aldraðir að fá pláss á hjúkrunarheimili um leið og þörf er á, en svo er ekki. Fjöldi aldraðra ætti þó ekki að koma okkur á óvart. Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að byggja upp hjúkrunarrými en í þrengingum síðari ára hefur fjármagnið verið nýtt til reksturs hjúkrunarheimila og viðhalds. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og það blasir við að við þurfum að fara að gera langtímaáætlanir varðandi uppbyggingu, til a.m.k. 20 ára.

Fjölga rýmum
Nú er unnið að grófri framkvæmdaáætlun um byggingarframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára. Þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega. Ljóst er að bæði er þörf á fjölgun hjúkrunarrýma og endurbótum á þeim rýmum sem fyrir eru til að mæta þeim viðviðum um aðbúnað sem þörf er talin á í dag.

Fleiri krónur
Ríkisstjórnin bætti í hvað varðar úthlutun fjármagns til hjúkrunarheimila á fjárlögum 2015, en betur má ef duga skal. Nú verða 200 millj. kr. veittar aukalega í hjúkrunarrými. Um er að ræða verulega fjölgun rýma í öllum heilbrigðisumdæmum sem kemur til móts við þá gríðarlegu þörf sem safnast hefur upp undanfarin ár. Á árinu verður 50 milljónum kr. varið til að bæta stöðu minni hjúkrunarheimila. Um er að ræða heimili með 20 eða færri hjúkrunarrými. Langflest þeirra eru á landsbyggðinni og mörg þeirra hafa átt í miklum rekstrarvanda. 50 milljónum kr. verður varið aukalega á árinu í heimahjúkrun fyrir fólk sem komið er með gilt færni- og heilsumat og bíður þess að komast á hjúkrunarheimili. Um er að ræða tilraunaverkefni með það að markmiði að fólk geti sem lengst búið heima.

Þó að menn greini á um ýmislegt getum við örugglega verið sammála um mikilvægi þess að bæta aðbúnað aldraðra. Fækkum þyrnunum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.