Í íslenskum skólum er gríðarlegur kraftur og vilji til góðra verka, bæði meðal nemenda og starfsfólks. Við viljum samt alltaf gera betur og þar vinnur margt með okkur. Þekking á skólastarfi hefur aukist, rannsóknir eru betri og fleiri, tæknin skapar tækifæri. Staða og námsárangur lesblindra barna er eitt þeirra mála sem hafa verið mér hvað hugleiknust frá því ég tók við embætti mennta- og menningarmálaráðherra árið 2017. Ég trúi því af öllu hjarta að læsi sé lykillinn að lífsgæðum og endurspegli hæfni okkar til að skynja og skilja umhverfið og samfélagið á gagnrýninn hátt. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á að efla læsi, og á mikilvægi þess að mæta öllum nemendum sem glíma við lesblindu og lestrarörðugleika. Skilningur á eðli lesblindu og áhrifa hennar hefur aukist og það viðhorf fer hverfandi að sumir geti einfaldlega ekki lært. Það er skylda og vilji stjórnvalda að hjálpa öllum börnum að finna leið til þess að læra, vaxa og blómstra.
Það dugar ekki að tala um slíkan vilja, heldur þurfum við að setja okkur markmið og láta hendur standa fram úr ermum. Þess vegna er brýnt að setja metnaðarfulla menntastefnu til ársins 2030, og innleiðingin er hafin með skýrum markmiðum og aðgerðum til að ná árangri! Í menntastefnunni er börnum og ungmennum heitið stuðningi við hæfi sem fyrst á námsferlinum. Því fyrr sem stuðningurinn er veittur, því betri árangurs má vænta. Stuðningur getur beinst að nemandanum sjálfum eða umhverfi hans og mikilvægt er að laga stuðninginn að þörfum viðkvæmra einstaklinga og hópa. Á næstu vikum mun ég leggja til allsherjar-átaksverkefni ríkis og sveitarfélaga, sem felst í því að öll börn á Íslandi fái viðeigandi stuðning fyrir 7 ára aldur. Það er forgangsmál og samtaka er það raunhæft markmið.
Þrautseigja og hugrekki liggja til grundvallar menntastefnunni. Við megum ekki við því að horfa fram hjá kröftum og hæfileikum allra, því samfélagið þarf sannarlega á þeim að halda til að vaxa og dafna. Nú á fimmtudaginn verður ný íslensk heimildarmynd um ungt fólk og lesblindu sýnd á RÚV. Myndin er fróðleg og hvetjandi og vonir standa til að hún muni vekja umræðu um eðli og algengi lesblindu, þau úrræði sem standa til boða og mikilvægi þrautseigjunnar fyrir persónulegan árangur í námi.
Við höfum áorkað miklu og sjáum strax jákvæðar breytingar, t.d. með fjölgun umsókna í iðnnám, fjölgun kennaranema og hækkun brautskráningarhlutfalls í framhaldsskólum. Það er nóg af verkefnum fram undan, en við getum engu að síður verið stolt af nemendum í íslenskum skólum, hugviti þeirra og hugmyndaflugi, færni og augljósum sköpunarkrafti. Ef byggt er á styrkleikum barna og ungmenna, og við finnum leiðina sem hentar hverjum og einum, þá höfum við engu að kvíða.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. febrúar 2021.