Categories
Greinar

Allt er nú breytt

Deila grein

08/04/2020

Allt er nú breytt

Plánetan jörð hefur aldrei verið smærri. Heimsfaraldurinn sem nú geisar spyr ekki um trúarbrögð, kynþátt, skoðanir eða þjóðfélagsstöðu. Verkefni næstu mánaða um allan heim munu snúa að vinnu við endurreisn efnahags og samfélaga í víðu samhengi. Ég er bjartsýn á að „nýi heimurinn“ muni einkennast af meira umburðarlyndi og minni fordómum.

Ég er einnig fullviss um að við munum standa uppi sem betri manneskjur eftir að þessu faraldri líkur. Við höfum verið tilneydd til að halda okkur heima og erum öll farin að þrá nánd, samveru og faðmlag frá okkar nánustu vinum og félögum. Samskipti sem alltaf hafa verið sjálfsögð og óhugsandi að yrði settar hömlur á eða bönn. Við munum vafalaust eftir þessa reynslu eina og sér meta samveru við annað fólk á annan hátt það sem eftir lifir. Reynsla sem mun vonandi minna okkur á að lifa í kærleika og gera okkur að betri og umburðarðlyndari manneskjum.

Þær aðstæður sem við verðum nú vitni að fá okkur til að tengja aftur í rætur okkar, hvaðan við komum og hvernig við höfum þróast sem samfélag og sem þjóð. Okkur skortir ekki trú á verkefnið og vitum að í okkur býr sá kraftur sem þarf til að koma hjólunum aftur af stað. En vonandi hefur gildismatið breyst og minnt okkur á þau lífsgæði sem við búum við sem þjóð. Yfirvöld eiga hrós skilið fyrir þær öflugu aðgerðir sem okkur hafa verið kynntar til þess að veita ástandinu viðspyrnu og koma fjölskyldum, einstaklingum og fyrirtækjum til varnar og lágmarka neikvæð langtímaáhrif.

SAMVINNA er grundvallar forsenda þess að við getum risið upp aftur sem öflugt samfélag með tækifæri til vaxtar eftir efnahagslegar hamfarir. Mikilvægt er að við séum öll meðvituð um það til lengri tíma að það endurreisnar tímabil sem framundar er verði að einkennast af SAMVINNU. Tækifæri okkar sem þjóðar til að vaxa felast í SAMVINNU greina sem standa í fremstu röð, matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, iðnaði, skapandi greinum og menntavísindum. Þessar greinar geta ekki án hvor annarra verið og geta með aukinni SAMVINNU lagt grundvöll að sjálfbærni þjóðarinnar. Sjálfbær þjóð sem er virk í alþjóðlegu samstarfi og í fremstu röð með útflutning á íslenskri hágæða framleiðslu og þekkingu.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 8. apríl 2020.