Categories
Greinar

HEILUN SAMFÉLAGSINS

Deila grein

07/04/2020

HEILUN SAMFÉLAGSINS

Nú er sannarlega viðkvæm staða hér á Vestfjörðum þegar smit hafa verið að berast með hraða um samfélagið. Þá sýnir það sig best að hver og einn skiptir máli; viðhorf einstaklingsins hefur aldrei skipt eins miklu máli og nú og Við slíkar aðstæður reynir virkilega á samvinnu í litlum samfélögum og reynir á stoðir þess og á sér ýmsar birtingamyndir. Heimasíminn gengur í endurnýjun líftíma og nágranninn verður hluti af fjölskyldunni. Heima með Helga verður að Juróvision landans og allir taka undir.

Allir í almannavörnum

Öflugt heilbrigðiskerfi ásamt almannavörnum takast nú á með öllu afli við veiruna og til þess að það náist þarf hver og einn að taka þátt, ekki bara Jón og Gunna á móti. Það er mikilvægt að allir hagi sér samkvæmt því sem ráðlegt er. Þannig léttum við byrði fólks sem heldur heilbrigðiskerfinu gangandi. Mikið álag hvílir á þeim sem sinna umönnun  innan heilbrigðisstofnana og þeim sem starfa hjá fólki með fötlun og sinna heimahjúkrun. Fólk í viðkvæmri stöðu á erfitt þegar hversdeginum er kippt úr sambandi. Því skiptir máli að gerast viðbragðsaðili í heilbrigðis-og félagsþjónustu þótt maður geti ekki lagt fram nema fáeinar klukkustundir í viku.

Það er traustvekjandi að sjá viðbrögð heilbrigðis- og almannavarnaryfirvalda hér á svæðinu og allir hlýða kalli, bæði fólk hér innan svæðis og utan. Stórtæk söfnun þriggja kvenna gerir það að verkum að hægt verður að kaupa öndunarvélar til Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Þetta segir til um þann hug sem við sameinumst í líkt og áður þegar áföll hafa dunið yfir.

Það vorar

Við erum komin nokkrum dögum frá jafndægri á vori; birtan varir lengur en myrkrið og enn vex hún. Stjórnvöld gera meira og  nærsamfélögin eru að gera meira. Þannig náum við þeirri viðspyrnu sem þarf til að ná okkur á strik aftur. En það verður ekki gert nema við berum traust hver til annars og sýnum umhyggju. Þannig heilum við samfélagið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 7. apríl 2020.