Categories
Greinar

Próf­steinn á okkur og sam­fé­lagið okkar

Deila grein

03/04/2020

Próf­steinn á okkur og sam­fé­lagið okkar

Starfsfólk bæjarfélagsins hefur staðið vaktina síðustu daga og vikur við mjög svo óvenjulegar og krefjandi aðstæður. Það hefur staðið vörð um grunnstoðir samfélagsins okkar í Hafnarfirði – leyst úr flóknum viðfangsefnum og verkefnum á undraskömmum tíma – og séð til þess að það gangi eins vel fyrir sig og mögulegt er við erfiðar aðstæður. Fyrir það ber að þakka.

COVID-19 er ákveðinn prófsteinn á okkur sem einstaklinga og samfélagið okkar í heild; hvernig við bregðumst við, stöndum saman og virðum og skiljum hvert annað. Með slíkri samstöðu munum við vinna okkur úr þeim erfiðleikum sem þessu fylgir.

Aðgerðaáætlun samþykkt í bæjarstjórn

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar taldi brýnt að bregðast við þeirri krefjandi stöðu sem samfélagið okkar stendur nú frammi fyrir með hröðum og markvissum aðgerðum. Á fundi bæjarstjórnar þann 1. apríl var samþykkt aðgerðaáætlun í 11 liðum til að bregðast við afleiðingum faraldursins. Hér er um að ræða fyrstu aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar, sem ætlað er að tryggja rekstur bæjarfélagsins og koma til móts við íbúa, atvinnulíf og félagasamtök. Aðgerðaáætlunin er fjölbreytt, tekur til margra sviða og hefur það að markmiði að lágmarka þá niðursveiflu sem óumflýjanleg er og standa vörð um þjónustu bæjarfélagsins.

Um aðgerðir þessar hefur ríkt þverpólitísk samstaða innan bæjarstjórnar sem hefur jafnframt gefið það út að ef þörf reynist á frekari aðgerðum sé ekkert því til fyrirstöðu að aðgerðaáætlunin verði tekin til endurskoðunar.

Hér má nánar lesa um aðgerðaáætlunina í heild og einstaka aðgerðir.

Sterkari saman

Þetta er tímabundið ástand, en því er ekki að leyna að í hönd fara erfiðir tímar í samfélaginu okkar og um heim allan. Við erum að upplifa tíma sem hafa áhrif á okkar daglega líf um stund og þeir reyna á okkur öll. Það hefur vakið eftirtekt mína hversu mikil samstaða og skilningur er á þessum tímum og mikið traust er til þeirra sem helstu ákvarðanir taka. Við erum í þessu saman. Með hækkandi sól mun aftur birta til.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2020.