Categories
Greinar

Nú er tíminn til að lesa

Deila grein

02/04/2020

Nú er tíminn til að lesa

Íslensk heim­ili tak­ast nú á við breytt­an veru­leika. Marg­ir hinna full­orðnu vinna heima sam­hliða því að sinna börn­um sem dauðlang­ar aft­ur í skól­ann og á íþróttaæf­ing­ar. Sjald­an hef­ur verið eins mik­il­vægt að rækta lík­ama og sál, fara út að hlaupa, taka veiru­frí­an klukku­tíma eða lesa.Það er nefni­lega sumt sem breyt­ist ekki og hef­ur fylgt þjóðinni frá ör­ófi alda. Við erum bókaþjóð. Við skrif­um, les­um og syngj­um, oft til að kom­ast í gegn um erfiðleika sem að okk­ur steðja. Við vit­um hversu miklu máli skipt­ir að rækta þessa hefð, ekki síst í ljósi þess að lesskiln­ing­ur er sér­stak­lega mik­il­væg­ur fyr­ir börn. Náms­ár­ang­ur þeirra til lengri tíma ræðst að miklu leyti af lesskiln­ingi þeirra, sem eykst með ástund­um. Hér gild­ir hið fornkveðna, að æf­ing­in skapi meist­ar­ann.

Með lestri rækt­ar þjóðin einnig menn­ing­ar­arf sinn. Hver bók tek­ur mann í manns eigið æv­in­týri. Hver blaðsíða efl­ir orðaforðann, kveik­ir nýj­ar hug­mynd­ir, eyk­ur skiln­ing og veit­ir þannig betri aðgang að heim­in­um öll­um. Þannig gegna ís­lensk­ir rit­höf­und­ar og þýðend­ur gríðarlega mik­il­vægu sam­fé­lags­hlut­verki. Það eru þeir sem bjóða okk­ur að ferðast um heim­inn þar sem sitj­um á sama stað með bók í hendi, í sótt­kví eða sam­komu­banni. Það er þeim og blóm­legri bóka­út­gáfu að þakka, að á mörg­um heim­il­um eru bóka­hill­ur full­ar af kræs­ing­um fyr­ir les­end­ur á öll­um aldri. Þar ægir sam­an Jóni Kalm­an, Ævari vís­inda­manni, Stein­unni Sig­urðardótt­ur, Hall­dóri Lax­ness yngri og eldri, Guðrúnu Helga­dótt­ur og öll­um hinum frá­bæru rit­höf­und­un­um og skáld­un­um. Hvort sem lög­reglumaður­inn Er­lend­ur, grall­ar­inn Fía­sól, Bjart­ur í Sum­ar­hús­um eða ung­frú­in Hekla hafa fangað at­hygli okk­ar, þá veita þau frels­andi hvíld frá amstri og áhyggj­um hvers­dags­ins. Við þurf­um á því að halda ein­mitt nú.

Allt of­an­greint var hvat­inn að nýju þjóðarátaki, sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið hleypti af stokk­un­um í gær und­ir heit­inu Tími til að lesa. Heitið er dregið af þeirri staðreynd, að nú hafi marg­ir meiri tíma en áður til að lesa og þörf­in hafi sjald­an verið meiri á að rækta hug­ann með lestri af öllu mögu­legu tagi. Við ætl­um að lesa meira en nokkru sinni áður og skrá lest­ur­inn á vefsíðuna tim­itila­dlesa.is á hverj­um degi til 30. apríl. Að átak­inu loknu ætl­um við að freista þess að fá ár­ang­ur­inn skráðan í heims­meta­bók Guinn­ess, líkt og sæm­ir bóka- og lestr­arþjóðinni í norðri.

Nú þarf að virkja keppn­is­skapið, og ef vel tekst til gæti verk­efnið orðið góður vitn­is­b­urður bókaþjóðar­inn­ar Íslend­inga um all­an heim. Og nú, eft­ir lest­ur þessa pist­ils, get­ur þú bætt fimm mín­út­um inn á þitt nafn á vefn­um tim­itila­dlesa.is! Mun­um að þrátt fyr­ir frostið, þá er samt að koma vor – það birt­ir til. Áfram Ísland!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2020.