Categories
Greinar

Áramót

Deila grein

31/12/2014

Áramót

Sigmundur-davíðÁgætu landsmenn.
Um þessi áramót er bjartara yfir landinu okkar en verið hefur um langan tíma, myrkur erfiðleika í þjóðlífi og efnahagsmálum að baki og framundan tími uppbyggingar og aukinnar velsældar. Um leið og við gleðjumst yfir hækkandi sól og því sem vel hefur til tekist á liðnu ári megum við ekki gleyma, að margir eiga um sárt að binda vegna slysa, veikinda, ástvinamissis eða annarra erfiðleika.

Viljinn til að rétta þeim sem minna mega sín hjálparhönd er sterkur í samfélagi okkar og við getum líklega flest verið sammála um að lengi megi gera betur í þeim efnum.

Í ríkisbúskap er í mörg horn að líta og verðug verkefni fleiri en hægt er að gera sér í hugarlund í fljótu bragði. En það er sama hversu gott málefnið er, ríkissjóður getur ekki frekar en fjölskylda leyft sér til lengdar að eyða um efni fram. Ríkisstjórnin er einhuga um að forgangsraða í þágu velferðar, heilbrigðismála og heimilanna í landinu. Með þeim fjárlögum sem samþykkt voru á Alþingi fyrir jól er lögð rík áhersla á að verja og efla þessar grunnstoðir samfélagsins.

Heilbrigðismál eru málaflokkur sem snertir okkur öll og veraldleg gæði mega sín lítils í samanburði við þau gæði sem felast í góðri heilsu. Sem fámenn þjóð stöndum við vissulega frammi fyrir mikilli áskorun þegar kemur að því að viðhalda hér framúrskarandi heilbrigðisþjónustu um ókomin ár.

Eftir harkalegan niðurskurð á undangengnum árum var heilbrigðiskerfið vissulega komið að þolmörkum en nú hefur langvarandi vörn verið snúið í sókn og breyttar áherslur frá niðurskurði fyrri ára birtast í fjárlögum þessa árs og þess næsta. Rekstrarframlög til heilbrigðisstofnana hafa verið aukin og fjárveitingar til Landspítalans á árinu 2015 verða hærri en nokkru sinni fyrr, jafnvel hærri en útgjaldaárin miklu 2007 og 2008. Auk þess hafa fjárveitingar til kaupa á lækningatækjum verið sjöfaldaðar borið saman við fjárframlög til tækjakaupa árin 2007 til 2012.

Þótt við viljum öll gera betur megum við ekki gleyma, að sem þjóð höfum við lengi getað státað af einu öflugasta heilbrigðiskerfi og samtryggingu í veröldinni. Þrátt fyrir fámenni hefur okkur tekist að vera í hópi þeirra þjóða sem bjóða upp á gott heilbrigðiskerfi sem allir eiga jafnan aðgang að, hvort sem viðkomandi hefur efni á dýrum sjúkratryggingum eða ekki.

Efnahagslegur bati og sögulegt tímabil stöðugleika
Íslensk heimili og atvinnulíf hafa á liðnu ári búið við einstakt tímabil stöðugleika í efnahagsmálum. Verðbólga, einn helsti óvinur launafólks, hefur nú í fyrsta sinn á öldinni haldist stöðug og verið í næstum heilt ár fyrir neðan viðmið Seðlabanka Íslands. Það er sögulegur árangur sem margir hafa átt þátt í að skapa. Lág verðbólga, ásamt skynsamlegum ákvörðunum í ríkisfjármálum og kjarasamningum, varð til þess að kaupmáttur jókst meira á árinu en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Aukning kaupmáttar á síðustu 12 mánuðum mælist nú 5,5% og hefur hann aðeins einu sinni áður mælst meiri á öldinni. Erfitt er að finna stærra hagsmunamál íslenskra heimila og samfélagsins alls, en aukningu kaupmáttar og ráðstöfunartekna heimila. Í fjárlögum komandi árs er enn ýtt undir þessa þróun, þar sem ýmsar beinar aðgerðir og breytingar á skattkerfinu eiga að leiða til enn frekari aukningar ráðstöfunartekna heimilanna. Þar er sérstaklega hugað að því að rétta hlut lágtekjufólks og fólks með millitekjur.

Fljótlega eftir áramót fara viðræður aðila vinnumarkaðarins um nýja kjarasamninga af stað af fullum þunga. Væntingar eru miklar en ekki er að efa að aðilar vinnumarkaðar skilja vel þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Það væri mikil synd ef einstakt tækifæri til að verja verðlagsstöðugleika og halda áfram að bæta kjör almennings á Íslandi færi forgörðum vegna átaka á vinnumarkaði.

Öflug þjóð í gjöfulu landi
Íslendingar eru lánsöm þjóð, landið er gjöfult með miklar náttúruauðlindir sem langt er frá að hafi verið nýttar til fulls. Ungri og vel menntaðri þjóð sem býr við slík skilyrði frá náttúrunnar hendi eru allir vegir færir. Ríkisvaldið þarf að veita framsæknu, þróttmiklu og hugmyndaríku fólki skilyrði til að reyna sig við stofnun og rekstur nýrra fyrirtækja sem skapa þjóðinni aukna velsæld. Mikill gróska er nú í nýsköpun í atvinnulífinu og fjöldi nýrra fyrirtækja er til vitnis um þrótt, þor og sköpunargleði þjóðarinnar. Í þeirri öflugu flóru nýsköpunarfyrirtækja sem nú auka fjölbreytni atvinnulífsins eru mörg fyrirtæki sem hafa þegar náð að skara fram úr í alþjóðlegri samkeppni.

Náðst hefur mikill árangur í efnahags- og atvinnumálum sem ríkisstjórnin mun byggja á til framtíðar til að skapa heilbrigt umhverfi fyrir þróttmikið atvinnulíf og auðvelda þá auknu framleiðslu verðmæta sem við þurfum til að standa undir aukinni velferð á Íslandi. Samhliða því að fyrirtækjum séu sköpuð sem best skilyrði til vaxtar er eðlilegt að gera þá kröfu til atvinnulífsins að það láti launþega njóta árangursins þegar vel gengur. Í því sambandi er mikilvægt að minnast þess að rekstur fyrirtækja, eins og heilu samfélaganna, gengur best ef hugað er að jafnræði.

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðina um ókomin ár að vel takist til við framkvæmd afnáms gjaldeyrishafta. Ein stærsta hindrunin eru þau miklu verðmæti í eigu þrotabúa föllnu bankanna sem talin eru munu leita úr landi ef umbreyting krónueigna í erlendan gjaldmiðil verður gefin frjáls. Ríkisstjórnin mun hér eftir sem hingað til hafa afkomu og heill almennings í landinu að leiðarljósi við allar ákvarðanir sem lúta að afnámi hafta. Þeir sem vonast til að tíminn vinni gegn ríkisstjórninni í tengslum við uppgjör hinna föllnu banka fara villir vegar. Ríkisvaldið mun ekki gera skuldir einkaaðila að sínum eða setja stöðugleika í efnahagsmálum í uppnám með því að gefa eftir í baráttu fyrir farsælli lausn þessara mála.

Gleðin
Stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa eiga það sameiginlegt að við þá talar mikill fjöldi fólks, oft með góðar ábendingar og athugasemdir um það sem má betur fara. Á göngu upp Laugaveg á Þorláksmessu vatt ókunnug kona sér að fjölskyldunni og sagðist vilja þakka fyrir það sem áunnist hefði við landsstjórnina. Hún bætti við að það væri verst hvað hinn þögli meirihluti væri óduglegur að láta í sér heyra meðan »háværum nöldurseggjum«, eins og hún orðaði það, væri að takast að ræna þjóðina gleðinni. Við eigum það flest sameiginlegt að geta glaðst á góðri stundu og líða betur innan um þá sem búa yfir gleði og lífshamingju frekar en nöldri og úrtölum. Víst er að lífið er of dýrmætt til að eyða því í formælingar og illmælgi. Gleði í samskiptum fólks bætir andrúmsloft og gerir lífið skemmtilegra.

Magnús Ásgeirsson þýddi á snilldarlegan hátt ljóð frá ýmsum löndum og eitt þeirra, ljóð eftir danska skáldið Axel Juel, fjallar um gleði, hryggð og hamingju. Fyrsta erindið fjallar um gleðina og hljóðar þannig:

Ljúfasta gleði allrar gleði
er gleði yfir því, sem er alls ekki neitt,
engu, sem manni er á valdi eða í vil,
gleði yfir engu og gleði yfir öllu,
gleðin: að vera til.

Með þessum ljóðlínum óska ég landsmönnum öllum gleðilegs og gæfuríks nýs árs og þakka ánægjuleg samskipti á liðnu ári.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]