Categories
Forsíðuborði Greinar

Augu heimsins beinast að Kóreu

Deila grein

22/11/2017

Augu heimsins beinast að Kóreu

Undanfarið hafa augu heimsins beinst að Kóreuskaganum vegna þeirrar kjarnorkuvár sem er fyrir hendi og óstöðugs stjórnarfars í Norður-Kóreu. Saga Kóreu er merkileg og miðast við Gojoseon-keisaradæmið árið 2333 f. kr. Sökum landfræðilegrar legu sinnar hefur Kórea gegnt mikilvægu hlutverki í samskiptum Kína og Japans en þrátt fyrir að vera á milli þessara öflugu ríkja náði Kórea að halda sjálfstæði. Kóreubúar hafa til að mynda alltaf talað kóresku en notuðu kínversk tákn fram á miðja 15. öld. Keisarinn í Kóreu á þeim tíma vildi auka læsi og lét því þróa sérstakt letur í stað þess að nota kínversk tákn. Miklu tímafrekara var að læra lestur í gegnum táknin og með þessu sérstaka letri jókst almennt læsi í Kóreu til muna og lægri stéttir höfðu það betra í kjölfarið. Árið 1905 hernam Japan Kóreu og var það mjög blóðugt. Japanir fóru kerfisbundið í að útrýma keisarafjölskyldunni og bönnuðu til að mynda öllum að tala kóresku. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar öðlaðist Kórea aftur sjálfstæði frá Japönum 15. ágúst 1945. Hins vegar var kalt stríð í uppsiglingu á milli stórveldanna, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, og framtíð Kóreu tók mið af því. Sovétmenn studdu Norður-Kóreu en Bandaríkin studdu við Suður-Kóreu. Mikil átök voru á milli þessara aðila sem enduðu svo með stríði í Kóreu árið 1950 en því lauk með vopnahléi 1953. Síðan þá hefur Kóreuskaganum verði skipt upp í þessu tvö ríki á 38. breiddargráðu.

Efnahags- og stjórnarfarsleg þróun þessara ríkja hefur verið gerólík síðustu sextíu árin. Alræðisstjórn hefur verið í N-Kóreu en S-Kórea hefur þróast í að verða lýðræðisþjóðfélag. Þjóðartekjur á mann í S-Kóreu eru um tuttugufalt hærri, lífslíkur mun meiri og menntunarstig betra. N-Kórea hefur átt erfitt með að brauðfæða þjóð sína og heilsufari hennar hrakað fyrir vikið. Sá umfangsmikli munur sem er á milli þessara ríkja skýrist fyrst og fremst af því að N-Kóreu hefur verið stjórnað með alræði og ósjálfbærri efnahagsstjórn. Þetta hefur kostað milljónir mannslífa og miklar hörmungar. Ástæða þess að hægt er að komast að þessari niðurstöðu hratt og örugglega er sú að uppruni og saga fólksins í báðum ríkjum er sú sama og hefur ekki haft áhrif á framvinduna.

Alþjóðasamfélagið hefur þrengt verulega að N-Kóreu með efnahagsþvingunum. Samskipti Bandaríkjanna og N-Kóreu hafa ekki verið fjandsamlegri síðan í Kóreustríðinu. Fórnarkostnaðurinn vegna þessa stjórnarfars N-Kóreu er mikill fyrir ríki Austur-Asíu, þar sem hernaðarútgjöld allra ríkjanna eru mun hærri vegna ástandsins. Farsælast væri fyrir alla aðila að auka efnahagslega samvinnu á svæðinu gegn því að N-Kórea léti af kjarnorkuáætlun sinni. Langtímamarkmiðið er friðsamleg sameining ríkjanna, sem eiga þessa löngu og merku sögu. Útkoman væri án efa mun betri en það ófremdarástand sem ríkir núna og minnir helst á Kúbudeiluna í hægum takti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2017