Categories
Greinar

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Deila grein

10/12/2022

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Síðastliðin ár höfum við séð mikla fjölgun heimsókna ferðamanna til Íslands. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll, en með tilkomu nýrra flugfélaga í millilandaflug hafa nýjar gáttir opnast inn í landið. Félögin fljúga bæði frá Akureyri og Egilsstöðum, sem skapar mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Einnig höfum við séð stóraukningu í framboði á veitingastöðum, gistirýmum, afþreyingu og verslunum á svæðinu okkar. Þessi stóraukning hefur vissulega orðið vegna mikils áhuga ferðamanna á svæðinu. Staðreyndin er að Norðausturland hefur mikið aðdráttarafl, býr yfir mikilli fegurð og það er frábært að vera þar. Það er nefnilega ekki bara fólkið á hverjum stað fyrir sig sem hefur ávinninginn af fjölgun ferðamanna á landsbyggðinni því þjónustustig á landsbyggðinni eflist með sterkari innviðum. Við þurfum að grípa tækifærin þegar þau birtast okkur, finna leiðir að betri og sanngjarnari dreifingu ferðamanna á milli landshluta og efla á sama tíma samgöngur um svæðið okkar. Það er okkur öllum og samfélaginu til heilla.

Aðstöðumunur flugvalla

Í kjölfarið sjáum við aðstöðumun millilandaflugvalla landsins á skýrari máta. Hann er margvíslegur, en nýlegar greiningar sýna fram á töluverðan kostnaðarmun á flugvélaeldsneyti milli flugvalla. Þar er flugvélaeldsneyti áberandi ódýrara á Keflavíkurflugvelli. Þá sérstaklega ef miðað er við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Þessi munur felst helst í stórauknum flutningskostnaði þegar eldsneytið er flutt á Norðausturland. Sérfræðingar hafa bent á ýmsar mögulegar leiðir til að jafna kostnaðarmuninn. Allt frá niðurgreiðslu kostnaðar að hálfu ríkisins, fjárfestingu í betri innviðum fyrir afgreiðslu og geymslu birgða til stofnunar óhagnaðardrifna afgreiðslufélaga.

Jöfnun kostnaðar og neyðarvörn

Ljóst er að ýmsar leiðir eru til staðar svo hægt sé að ná því markmiði að jafna kostnað á flugsteinolíu og afgreiðslu hennar á milli millilandaflugvalla hérlendis. Hér væri einnig um að ræða mikilvæga aðgerð til jöfnunar atvinnutækifæra á Akureyri og Egilsstöðum. Það er mikilvægt að við finnum leið til jafna kostnað á flugvélaeldsneyti og með því gera flugvellina okkar á Akureyri og Egilsstöðum samkeppnishæfari í móttöku ferðamanna.

Í því samhengi er einnig talið mikilvægt að komið verði fyrir neyðarbirgðum af flugvélaeldsneyti meðfram lausnum á ofangreindum aðstöðumuni, sem gætu verið geymdar á fleiri en einum stað. Slík fyrirbyggjandi aðgerð getur skipt sköpum ef nauðsynlegt væri að grípa til neyðarráðstafana.

Finnum leið

Undirrituð hefur lagt fram beiðni um skýrslu frá innviðaráðherra um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í samanburði við Keflavíkurflugvöll. Óskað er þess að í skýrslunni verði kveðið á um hugsanlegar aðgerðir sem hægt er að grípa til svo möguleiki sé á að ná framangreindum markmiðum á sem hagkvæmasta máta.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 10. desember 2022.