Þann 1. janúar næstkomandi tekur til starfa nýtt félagsmálaráðuneyti í samræmi við ákvörðun Alþingis um breytta skipan Stjórnarráðsins. Embættistitill minn breytist frá sama tíma og verður félags- og barnamálaráðherra. Fyrir þeirri breytingu er einföld ástæða. Ég hef frá fyrsta degi í stóli ráðherra sem fer með málefni barna lagt sérstaka áherslu á þann málaflokk og lagt kapp á vinnu við verkefni í þágu barna og barnafjölskyldna.
Að mínu frumkvæði undirrituðu fimm ráðherrar viljayfirlýsingu um aukið samstarf í þágu barna nú í haust. Hún endurspeglar vilja okkar til að tryggja samstarf þvert á kerfi, stuðla að samfelldri þjónustu við börn og foreldra þegar þörf er fyrir hendi og skapa meiri viðbragðsflýti innan kerfisins með auknum hvata til snemmtækrar íhlutunar. Auk ráðherrayfirlýsingarinnar hefur verið sett á fót þverpólitísk þingmannanefnd um málefni barna, sem er einnig mikilvægt til að raungera þá ríku áherslu á málefni barna sem samfélag okkar þarf svo mikið á að halda.
Þótt orð séu til alls fyrst, þarf líka fjármuni til að hrinda góðum vilja í framkvæmd. Þess vegna er gott að geta sagt frá því að samstaða var í ríkisstjórninni um að auka framlög til málefna barna um 200 milljónir króna til að styðja við þá endurskoðun á málaflokknum sem nú stendur yfir og vinna að ýmsum mikilvægum verkefnum sem varða snemmtæka íhlutun og aðstoð og einnig má nefna fjármagn upp á tugi milljóna á þessu ári og 80 milljónir á næsta ári sem nýtist börnum í fíknivanda.
1,8 milljarðar til hækkunar fæðingarorlofs
Stuðningur við foreldra er stuðningur við börn. Þess vegna stendur ríkisstjórnin einhuga að baki hækkun á greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi á næsta ári. Fullar greiðslur hækka úr 520.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. og nemur heildarkostnaður þessarar aðgerðar 1,8 milljörðum króna. Enn fremur hækkum við mótframlagið í lífeyrissjóð úr 8% í 11,5% á næsta ári. Stefna ríkisstjórnarinnar er bæði að hækka greiðslurnar og lengja orlofið og lenging þess verður næsta skrefið í þessu máli.
Loks vil ég geta um aukið framlag vegna uppbyggingar sérstakra búsetuúrræða fyrir börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir en um 150 milljónum króna verður varið á næsta ári til þess.
Það er gaman að geta kynnt þessi mikilvægu verkefni í þágu barna sem unnið er að. Vilji stjórnvalda er skýr og einbeittur í þessum efnum. Málefni barna hafa meðbyr og það er vaxandi skilningur fyrir því í samfélaginu að börnin okkar eru mikilvægasta fjárfesting framtíðarinnar.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.