Categories
Greinar

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Deila grein

10/12/2018

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Þann 1. janú­ar næst­kom­andi tek­ur til starfa nýtt fé­lags­málaráðuneyti í sam­ræmi við ákvörðun Alþing­is um breytta skip­an Stjórn­ar­ráðsins. Embætt­istit­ill minn breyt­ist frá sama tíma og verður fé­lags- og barna­málaráðherra. Fyr­ir þeirri breyt­ingu er ein­föld ástæða. Ég hef frá fyrsta degi í stóli ráðherra sem fer með mál­efni barna lagt sér­staka áherslu á þann mála­flokk og lagt kapp á vinnu við verk­efni í þágu barna og barna­fjöl­skyldna.

Að mínu frum­kvæði und­ir­rituðu fimm ráðherr­ar vilja­yf­ir­lýs­ingu um aukið sam­starf í þágu barna nú í haust. Hún end­ur­spegl­ar vilja okk­ar til að tryggja sam­starf þvert á kerfi, stuðla að sam­felldri þjón­ustu við börn og for­eldra þegar þörf er fyr­ir hendi og skapa meiri viðbragðsflýti inn­an kerf­is­ins með aukn­um hvata til snemm­tækr­ar íhlut­un­ar. Auk ráðherra­yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar hef­ur verið sett á fót þver­póli­tísk þing­manna­nefnd um mál­efni barna, sem er einnig mik­il­vægt til að raun­gera þá ríku áherslu á mál­efni barna sem sam­fé­lag okk­ar þarf svo mikið á að halda.

Þótt orð séu til alls fyrst, þarf líka fjár­muni til að hrinda góðum vilja í fram­kvæmd. Þess vegna er gott að geta sagt frá því að samstaða var í rík­is­stjórn­inni um að auka fram­lög til mál­efna barna um 200 millj­ón­ir króna til að styðja við þá end­ur­skoðun á mála­flokkn­um sem nú stend­ur yfir og vinna að ýms­um mik­il­væg­um verk­efn­um sem varða snemm­tæka íhlut­un og aðstoð og einnig má nefna fjár­magn upp á tugi millj­óna á þessu ári og 80 millj­ón­ir á næsta ári sem nýt­ist börn­um í fíkni­vanda.

1,8 millj­arðar til hækk­un­ar fæðing­ar­or­lofs

Stuðning­ur við for­eldra er stuðning­ur við börn. Þess vegna stend­ur rík­is­stjórn­in ein­huga að baki hækk­un á greiðslum til for­eldra í fæðing­ar­or­lofi á næsta ári. Full­ar greiðslur hækka úr 520.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. og nem­ur heild­ar­kostnaður þess­ar­ar aðgerðar 1,8 millj­örðum króna. Enn frem­ur hækk­um við mót­fram­lagið í líf­eyr­is­sjóð úr 8% í 11,5% á næsta ári. Stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er bæði að hækka greiðslurn­ar og lengja or­lofið og leng­ing þess verður næsta skrefið í þessu máli.

Loks vil ég geta um aukið fram­lag vegna upp­bygg­ing­ar sér­stakra bú­setu­úr­ræða fyr­ir börn með al­var­leg­ar þroska- og geðrask­an­ir en um 150 millj­ón­um króna verður varið á næsta ári til þess.

Það er gam­an að geta kynnt þessi mik­il­vægu verk­efni í þágu barna sem unnið er að. Vilji stjórn­valda er skýr og ein­beitt­ur í þess­um efn­um. Mál­efni barna hafa meðbyr og það er vax­andi skiln­ing­ur fyr­ir því í sam­fé­lag­inu að börn­in okk­ar eru mik­il­væg­asta fjár­fest­ing framtíðar­inn­ar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.