Barnasáttmálinn er loforð sem við gáfum öllum heimsins börnum fyrir 30 árum, loforð sem var lögfest á Íslandi 2013. Samkvæmt því loforði skulu öll börn njóta jafnræðis, það sem barni er fyrir bestu skal vera leiðandi forsenda við allar ákvarðanir stjórnvalda og börn og ungmenni skulu höfð með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar fyrir þeirra hönd um málefni sem þau varðar.Á alþjóðlegum mælikvarða hafa börn á Íslandi það afar gott og sýna rannsóknir okkur að landið okkar er eitt besta land í heimi fyrir börn til að búa á. Slíkur samanburður gefur okkur vissulega hugmynd um hvar við stöndum í stóra samhenginu en við megum ekki dvelja við það of lengi. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hvetur ríki til að bera sig saman við sig sjálf, rýna og skoða stöðu barna á hverjum tíma og fylgjast sérstaklega með þróun og velferð hópa barna sem standa höllum fæti eða málefnum sem reynslan og gögnin segja okkur að huga þurfi betur að. Þegar kemur að uppfylla þessar forsendur skiptir gríðarlega miklu máli að ríki og sveitarfélög vinni markvisst saman að því að innleiða forsendur Barnasáttmálans. Sáttmálinn á að vera vegvísir okkar og áttaviti þegar kemur að öllum málum er varða börn með einum eða öðrum hætti.
Sveitarfélögum boðin þátttaka
Hinn 25. febrúar síðastliðinn fengu bæjarráð allra sveitarfélaga á Íslandi erindi frá mér og UNICEF á Íslandi með tilboði um þátttöku í verkefninu Barnvænt Ísland og taka skref til þess að fá vottun sem barnvæn sveitarfélög. Um er að ræða verkefni sem aðstoðar sveitarfélög með markvissum hætti að innleiða barnasáttmálann inn í starfsemi þeirra. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga er byggð á alþjóðlegu verkefni, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996. Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í átta skref sem sveitarfélag stígur, með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna.Akureyri, Kópavogur og Hafnarfjörður hafa þegar hafið innleiðingu verkefnisins við góðan orðstír og eru þau fyrstu sveitarfélögin á Íslandi til að taka þátt í verkefninu, en skrifað var undir samstarfssamning við Borgarbyggð um þátttöku í verkefninu fyrr í þessari viku. Á þessu ári er stefnt að því að fimm sveitarfélög bætist í hópinn og tólf sveitarfélög til viðbótar árið 2021. Viðtökur við tilboði félagsmálaráðuneytisins og UNICEF um þátttöku í verkefninu hafa verið vonum framar og er ég þess fullviss að á næstu árum muni öll sveitarfélög á landinu vera komin vel á veg við markvissa innleiðingu Barnasáttmálans. Markmiðið er að gera Ísland allt barnvænt samfélag.
Áhersla á börn og fjölskyldur
Verkefni þetta rímar vel við þær áherslur sem ég hef lagt í embætti mínu frá upphafi núlíðandi kjörtímabils. Réttindi barna og fjölskyldna þeirra hafa verið þar í forgrunni og miklar breytingar í farvatninu til þess að tryggja fullnægjandi og samræmda þjónustu fyrir börn og fjölskyldur hérlendis. Markmiðið er að fjölskyldur barna sem þurfa stuðning verði gripnar snemma á þeirri vegferð, umvafðar stuðningi og veitt viðeigandi þjónusta eftir eðli hvers tilviks fyrir sig.Sú vinna hófst með því að fá fjöldann allan af hagsmunaaðilum að borðinu til þess að rýna í þá umgjörð sem þegar er til staðar þegar kemur að börnum og fjölskyldum þeirra. Hvað væri að ganga vel og hvað þyrfti að laga að einhverju leyti, í takt við breyttan tíðaranda, breyttar kröfur og breytt samfélag frá þeim tíma sem kerfið var sett upp. Margir hópar fólks, bæði notenda þjónustu, fjölskyldum sem hafa hagsmuna að gæta eða hafa haft hagsmuna að gæta, fagfólk og fræðimenn komu að vinnunni á upphafsstigum. Hlustað var á allar raddir.
Vinnunni var ætlað að samþætta alla þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra á Íslandi, tryggja aukið þverfaglegt samstarf innan viðeigandi þjónustukerfa og tryggja að hagsmunir barna verði ávallt í fyrirrúmi svo og alþjóðlegar skuldbindingar. Í vinnunni hefur heildarsýn, sem tekur mið af aðkomu allra þeirra aðila sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu, verið höfð að leiðarljósi.
Nýtt frumvarp
Ég mun á næstu vikum leggja inn í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp sem unnið hefur verið þvert á alla þingflokka, þvert á mörg ráðuneyti og í miklu samráði við alla helstu hagsmunaaðila. Vil ég færa þeim aðilum sem að vinnunni hafa komið mínar allra bestu þakkir fyrir afar gott samstarf og mjög gagnlegar tillögur. Án þeirra hefði ekki verið mögulegt að ná utan um öll þau atriði sem við höfum unnið með.Ofangreint frumvarp hefur það að meginmarkmiði að búa til umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að velferðarþjónustu við hæfi án hindrana. Efni frumvarpsins miðar að því að formfesta samstarf um veitingu þjónustu við börn og barnafjölskyldur og skapa þannig skilyrði til að unnt sé að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Lögð er áhersla á að stjórnsýsla og eftirfylgni mála sé skilvirk og eins einföld í framkvæmd og mögulegt er út frá sjónarhorni barna og foreldra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2020.