Categories
Greinar

Berskjaldaður eða bólusetning

Deila grein

25/02/2015

Berskjaldaður eða bólusetning

Jóhanna María - fyrir vefSíðustu vikur hafa bólusetningar barna verið mikið til umræðu eftir að móðir skrifaði pistil um hvernig hún þurfti að bíða í von og óvon til að komast að því hvort að sonur hennar hefði smitast af mislingum, hann var það ungur að hann hafði ekki fengið bólusetninguna sem hefði þurft í þessu tilfelli. Þar velti hún því upp hvort að þeir sem fara í bólusetningu og láta bólusetja börn sín væru að vernda þá sem kjósa að sleppa bólusetningum. Og þarna þurfti hún að bíða heima, bíða eftir því hvort að sonur hennar færi að sýna einkenni mislinga sem í versta falli gætu leitt til dauða. Á vefsíðu landlæknis segir: „Öllu jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.“ Og þrátt fyrir allt þá veitir bólusetning aðeins 95% vörn, er það ekki betra en 0%?

Í lögum hérlendis segir að börnum með lögheimili hér á landi skuli vers boðin bólusetning gegn tilteknum smitsjúkdómum þeim að kostnaðarlausu. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um bólusetningar barna sem lagt var fram í vikunni segir m.a. að þátttaka í bólusetningum hérlendis sé almennt góð. Árið 2005 var búinn til bólusetningargrunnur og sýnir hann að ekki er merkjanlegur munur milli ára á fjölda barna sem fær bólusetningar. Þá kemur einnig fram í svarinu að þátttaka í bólusetningum er frá 88% upp í 96% við hinum ýmsu smitsjúkdómum eins og mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Þá eru einnig bólusetningar við HPV sýkingu, barnaveiki, stífkrampa, kikhósta, Hib Heilahimnubólgu, lömunarveiki o.fl. innan þessara marka.

Með bólusetningu er mögulegt að útrýma sjúkdómum þó megin markmiðið sé auðvitað að koma í veg fyrir þá og hættulegar afleiðingar þeirra sem og hindra farsóttir. Bólusetning verndar ekki bara börnin sem hana fá, heldur kemur líka í veg fyrir smit milli barna. Það er sárasjaldan ástæða til að bólusetja ekki barn.

Vegna tilkomu bólusetningargrunns getur sóttvarnarlæknir sent nafnalista með þeim aðilum sem ekki hafa verið bólusettir til heilsugæslu, haft upp á þeim og boðið bólusetningu. Þá er einnig hægt að leiðrétta skráningu ef svo ber við. Ísland er einstaklega vel stætt í þessum málum miðað við önnur Norðurlönd og mikilvægt er að halda því við, þar sem tilfelli smitsjúkdóma sem hægt er að bólusetja við fækkar á móti. Þær upplýsingar sem ég hef koma frá landlækni og heilbrigðisráðuneytinu, en að mínu viti eru 5% líkur á að vera berskjaldaður fyrir alvarlegum smitsjúkdóm betra en að hafa enga vörn.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í DV 24. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.