Með hækkandi sól mun fyrsta heildstæða myndlistarstefna Íslands líta dagsins ljós sem mótuð hefur verið í nánu samstarfi við helstu hagaðila í myndlist á landinu. Stefnan mun setja fram heildstæða sýn fyrir myndlistarlíf að vaxa og dafna til ársins 2030. Myndlist hefur leikið mikilvægt hlutverk innan íslensks samfélags allt frá því snemma á 20. öld og er hratt vaxandi list- og atvinnugrein á Íslandi í dag. Á liðinni öld hafa þúsundir Íslendinga numið myndlist að einhverju marki þótt einungis lítið brot þeirra, eða nokkur hundruð, starfi við greinina í dag og einungis hluti þeirra í fullu starfi.
Áhersla í nýrri stefnu verður á fjölbreyttan stuðning við listsköpun, kennslu í myndlist og almenna vitundarvakningu almennings um að myndlist sé fyrir alla að njóta. Þá verður stjórnsýsla og stuðningskerfi myndlistar eflt en um leið einfaldað í þágu árangurs. Við viljum að á Íslandi starfi öflugar og samstilltar myndlistarstofnanir með þjóðarlistasafn á heimsmælikvarða sem styður með jákvæðum hætti við alla aðra þætti kraftmikils myndlistarlífs um allt land og alþjóðlegt orðspor íslenskrar myndlistar. Myndlistarmiðstöð tekur við hlutverki Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og verður kraftmikil miðja stuðningskerfis myndlistarmanna sem vinnur með myndlistarlífinu. Ný myndlistarstefna setur fram sýn og aðgerðir sem hafa í för með sér hvata til eflingar á alþjóðlegu myndlistarstarfi hér heima og erlendis.
Myndlist sem atvinnugrein á Íslandi stendur nú á ákveðnum tímamótum. Ungu fólki fjölgar sem kýs að starfa við listsköpun, eins og myndlistina, sem er í eðli sínu grein framtíðar, alþjóðleg og sjálfbær í senn. Stefnan setur fram aðgerðir sem munu auka sýnileika greinarinnar gegnum mælingu á hagvísum hennar, ýta úr vegi hindrunum og innleiða hvata og ívilnanir sem styðja við myndlistarmarkað. Í ljósi stærðar alþjóðamarkaðar með myndlist og eftirtektarverðs árangurs íslenskra myndlistarmanna má ætla að vaxtatækifæri myndlistar séu veruleg. Með aukinni fjárfestingu hins opinbera og einkageira mun greinin geta skilað þjóðarbúinu talsvert meiri verðmætum en hún gerir nú. Með fyrstu myndlistarstefnu Íslands er mótuð framtíðarsýn sem styðja við jákvæða samfélagsþróun auk þess að styðja við myndlistarlíf á Íslandi til framtíðar.
Menning og listir hafa gætt líf okkar þýðingu á erfiðum tímum. Mörg stærstu tækifæra íslensks samfélags og atvinnulífs felast einmitt þar. Myndlistin er ein þeirra greina sem hefur tekist á við áskoranir heimsfaraldursins með aðdáunarverðum hætti. Söfn, gallerí og listamannarekin rými hafa að mestu verið opin og staðið fyrir sýningarhaldi. Það er löngu tímabært að stjórnvöld horfi til framtíðar í myndlistarmálum þjóðarinnar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. mars 2021.