Categories
Greinar

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Deila grein

15/08/2023

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Við í Framsókn Akureyri viljum sjá bæinn okkar blómstra og þeirri uppbyggingu fylgir eðlilega alls konar tæki og tól. Það getur verið kostnaðarsamt fyrir t.d. minni fyrirtæki að koma sér upp lóðum/stæðum fyrir þau tæki sem fylgja starfseminni, enda gera gatnagerðargjöld ráð fyrir miklu byggingarmagni og gjaldskráin eftir því. Þá þarf að leita annarra lausna sem eru sniðnar að mismunandi þörfum.

Ég hef talað fyrir því að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga með því að bjóða upp á vaktað geymslusvæði eins og tíðkast í mörgum sveitarfélögum. Á síðasta skipulagsráðsfundi var samþykkt þessi tillaga mín: Haldinn verður opinn fundur með verktökum, atvinnurekendum og félagasamtökum þar sem rætt verður um hvort grundvöllur sé fyrir því að koma upp vöktuðu geymslusvæði í bæjarlandinu þar sem einstaklingar og fyrirtæki geti leigt pláss fyrir svo sem ökutæki, gáma, hjólhýsi og vinnuvélar.

Það er von mín að fyrirtæki og einstaklingar í bænum taki vel í þessar hugmyndir og mæti í samtalið svo við getum í sameiningu fundið lausn á málum. Hvort sem þetta verður niðurstaðan, eða ef önnur betri finnst, þá getum við ekki látið stöðuna óáreitta.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. ágúst 2023.