Categories
Greinar

Bókaþjóðin les og skrifar

Deila grein

17/09/2018

Bókaþjóðin les og skrifar

Ein bók, einn penni, eitt barn eða einn kennari geta breytt heiminum.« Orð þessi eru höfð eftir Malölu Yousafzai, ungri pakistanskri konu sem barist hefur fyrir réttindum barna og þá ekki síst stúlkna til þess að fá að ganga í skóla. Bækur breyta heiminum á hverjum degi; þær eru einn farvegur hugsana okkar, ímyndunarafls, skoðana og sagna og í fjölbreytileika sínum auðga þær tilveru okkar, fræða og skemmta.

Staðreyndin er þó sú að læsi barnanna okkar hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði. Að auki hefur bóksala í landinu dregist verulega saman eða um 36% á síðustu 10 árum. Ástæður þess má einna helst rekja til breyttrar samfélagsgerðar og örrar tækniþróunar því aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu hefur leitt til þess að lestur bóka á íslensku hefur minnkað verulega. Þessi þróun skapar ógn við tungumálið.

Á dögunum var kynnt heildstæð aðgerðaáætlun til stuðnings íslenskunni og þar á meðal eru aðgerðir til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Með nýju frumvarpi, sem lagt verður fram nú á haustþingi, verður sett á laggirnar nýtt stuðningskerfi sem felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka. Áætluð framlög eru um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019. Að auki verður stofnaður sérstakur barna- og unglingabókasjóður en yngri kynslóðin hefur bent ötullega á að auka þurfi framboð af slíkum bókum.

Mikilvægi bókaútgáfu er óumdeilt fyrir varðveislu íslenskunnar. Það er ekki síst á herðum íslenskrar bókaútgáfu að bregðast við þessum breyttum aðstæðum. Rithöfundar hafa sannarlega fundið fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í sölu íslenskra bóka og þeirra hagsmunir eru samofnir árangri útgefenda.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að auka lestur og efla bókaútgáfu í landinu. Ég er sannfærð um að þessar aðgerðir eru til þess fallnar að auka framboð, fjölbreytni og sölu á íslenskum bókum til framtíðar. Þær munu stuðla að lækkun á framleiðslukostnaði bóka og auka þannig svigrúm til kaupa á vinnu og þjónustu. Þessar aðgerðir eiga fyrirmynd í endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar hér á landi en þær hafa reynst vel á þeim vettvangi og haft jákvæða keðjuverkun í för með sér.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september 2018.