Categories
Greinar

Við upphaf þingvetrar

Deila grein

17/09/2018

Við upphaf þingvetrar

Nú styttist í að Alþingi vereði sett að nýju. Hvaða mál verða þá helst til umræðu. Við hjá Suðurnesjablaðinu heyrðum í Silju Dögg Gunnarsdóttur úr Suðurkjördæmi.

Hvaða mál verða helst til umræðu þegar Alþingi kemur saman eftir sumarhlé?

Fjárlögin verða auðvitað stóra málið, eins og alltaf. Það er staðreynd að við Suðurnesjamenn höfum ekki fengið það sem okkur ber við úthlutun fjármuna og því ætlum við okkur að breyta. Þó að skilningur hafi aukist innan embættismannakerfisins á aðstæðum hér suður með sjó, þá er hann enn ekki nægur. Við stöndum ekki bara frammi fyrir mestu fólksfjölgun sem sögur fara af, heldur erum við einnig með sérstaka íbúasamsetningu, þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn. Einnig er ekki horft nægilega til þess hversu margir fara um flugstöðina á hverjum sólarhring sem hefur t.a.m. stóraukið álag á löggæslu og sjúkraflutninga. Í fimm ára fjármálaáætlun (sem er ramminn fyrir málasvið ráðuneyta í fjárlögum ár hvert)  sem samþykkt var í vor er eftirfarandi texti:

„Fordæmalaus fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun ferðamanna um land allt kallar á skoðun á því hvort fjárveitingar geti í ríkari mæli færst á milli svæða. Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að gera endurskoðun fjárveitinga gagnsærri en verið hefur og upplýsa um þá þætti sem ráða úthlutun fjármuna. Þar þarf sérstaklega að horfa til íbúaþróunar á Suðurnesjum þar sem heilbrigðisframlög á íbúa eru lægri en annars staðar á landinu.“

Að fá þessar setningar samþykktar í fjármálaáætlun var ákveðinn sigur fyrir okkur hér á svæðinu. En við þurfum að halda vel á spöðunum og gæta hagsmuna íbúa á Suðurnesjum.

Áhersla á umferðaröryggi

Hitt stóra málið verður án efa samgönguáætlun, sem verður lögð fram í haust. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú.

Hvað mál munt þú helst leggja áherslu á?

Mannréttindi, félagslegt réttlæti og þá sérstaklega réttindi barna, eru mér afar hugleikin. Ég mun endurflytja þingmálin mín sem ekki voru samþykkt sl. vor, þ.e. þingsályktun um réttindi barna til að þekkja uppruna sinn, frumvarp um breytingar á lögum barnalífeyri (börn sem hafa misst foreldri), frumvarp um bótarétt fanga, þ.e. að þeir sem stunda vinnu og/eða nám á meðan á afplánun stendur geti unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta, breytingar á lögum um fæðingarorlof, þ.e. að fólk sem þarf að fara að heima til að fá fæðingarþjónustu fái þann tíma bættan með lengra fæðingarorlofi, frumvarp um aukið eftirlit með dæmdum barnaníðingum sem og frumvarp um bann við ónauðsynlegum aðgerðum á kynfærum drengja (umskurðarfrumvarpið).

Þingveturinn framundan verður án efa spennandi og  skemmtilegur. Ég vona að hann verði einnig árangursríkur, okkur öllum til hagsbóta.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Suðurnesjablaðinu 6. september 2018.