Samband Íslands og Póllands er sterkt og vaxandi. Viðtökurnar í opinberri heimsókn forseta Íslands til Póllands eru merki um það, en heimsókninni lýkur í dag. Saga þjóðanna er afar ólík, þar sem pólsk menning hefur mótast af landfræðilegri stöðu og átökum á meginlandi Evrópu í árhundruð.
Íslensk menning á rætur í hnattstöðu landsins, mikilli einangrun um aldir og smæð þjóðar. Engu að síður eru þjóðirnar um margt líkar og við deilum mörgum gildum. Það kann að vera ein ástæða þess, að þeir ríflega 21 þúsund Pólverjar sem búa á Íslandi hafa komið sér vel fyrir í nýju landi, gerst virkir þátttakendur í samfélaginu og auðgað íslenska menningu. Það á ekki að koma neinum á óvart að þjóð sem alið hefur af sér vísinda- og listamenn á borð við Chopin, Kópernikus og Marie Curie skuli stolt af uppruna sínum og menningu. Menningarsamband Íslands og Póllands hefur sjaldan verið jafn gæfuríkt og nú.
Á 50 ára afmæli Listahátíðar í Reykjavík verður lögð sérstök áhersla á pólska listamenn og samfélag fólks af pólskum uppruna á Íslandi. Á sviði tónlistar, kvikmynda og sviðslista hafa myndast sterk tengsl milli Íslands og Póllands og meðal annars leitt til samstarfs Íslensku óperunnar og Pólsku þjóðaróperunnar. Það sama hefur gerst í heimi bókmenntanna og var Ísland heiðursland á stórri bókamessu í Gdansk í fyrra – þeirri fallegu hafnarborg, sem geymir ómælda þekkingu á skipasmíðum og því sögu sem tengist íslenskum sjávarútvegi. Þá hefur Íslensk-pólsk veforðabók orðið til og mætir brýnni þörf pólskumælandi fólks á Íslandi, nemenda og kennara á öllum skólastigum, þýðenda og túlka.
Grunnskólanemendur með erlent móðurmál hafa aldrei verið fleiri en nú. Um 3.000 pólskumælandi börn eru í íslenskum skólum og það er brýnt að þeim séu tryggð sömu réttindi og tækifæri og börnum íslenskumælandi foreldra. Skólarnir eru misvel búnir til að mæta þörfum þeirra. Það skiptir sköpum fyrir framtíð þeirra og samfélagið allt að vel takist til á þessu sviði. Íslensk og pólsk menntamálayfirvöld hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um að efla enn frekar samstarf landanna á sviði menntunar. Lögð verður áhersla á að nemendur af pólskum uppruna hafi aðgang að menntun á móðurmáli sínu, hvatt er til aukins samstarfs menntastofnana og samskipta ungmenna, kennara og skólastarfsfólks. Jafnframt þarf að efla íslenskukunnáttu þessara barna. Góð íslenskukunnátta mun tryggja börnum af erlendum uppruna betri tækifæri, auka þekkingu þeirra á samfélaginu, félagsfærni og hjálpa þeim að blómstra.
Í tilefni opinberrar heimsóknar forseta Íslands er vert að staldra við og kanna hvernig efla megi samvinnu landanna enn frekar. Hún hefur verið farsæl fyrir báðar þjóðir og mun vonandi verða um alla tíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2020.