Categories
Greinar

Börn og ungmenni í forgrunni

Deila grein

27/12/2019

Börn og ungmenni í forgrunni

Um síðustu áramót breytti ég embættistitli mínum í félags- og barnamálaráðherra. Er það í fyrsta sinn á Íslandi sem embættistitill ráðherra vísar til málefna barna. Við Íslendingar gerum mjög margt vel þegar kemur að velferð barna en ég hef, engu að síður, orðið var við brotalamir og glufur í kerfinu. Þá eru sífellt að koma fram nýjar rannsóknir sem sýna fram á að barnæskan og velferð barna skipti sköpum þegar kemur að því að byggja upp sterka einstaklinga til framtíðar og þar með heilbrigt og virkt samfélag. Sannast með því gamla máltækið um að lengi búi að fyrstu gerð og er ég þeirrar skoðunar að besta fjárfesting sem samfélag getur ráðist í sé að hlúa vel að börnum. Sú fjárfesting er ekki einvörðungu góð þegar litið er á bætta líðan og virkni einstaklinga í samfélaginu, heldur einnig á fjárhagslegan mælikvarða.

Endurskoðun á þjónustu við börn
Á þessu eina ári sem brátt er á enda hefur margt áunnist. Unnið hefur verið að endurskoðun og samþættingu á allri þjónustu við börn og er útlínur að nýju velferðarkerfi þeim til handa að verða til. Því er meðal annars ætlað að grípa börn sem á þurfa að halda fyrr en verið hefur og bjóða strax í upphafi fram viðeigandi stuðning og aðstoð. Mikil vinna liggur þarna að baki en einn lykillinn að því að svo stórar breytingar geti orðið að veruleika er sú þverpólitíska samstaða sem hefur myndast um mikilvægi þess að setja börn í forgang. Formlegu samstarfi á milli ráðuneyta sem fara með málefni barna hefur verið komið á fót en auk þess er þverpólitísk þingmannanefnd í málefnum barna að störfum. Þá hafa sérfræðingar í málefnum barna úr öllum áttum lagt mikið af mörkum.

Stórsókn í barnavernd
Þó endurskoðunin fari fram á öllum þjónustustigum hefur, eins og gefur að skilja, verið lögð sérstök áhersla á að styrkja barnaverndarkerfið fyrir þau börn sem höllustum fæti standa. Með nýrri framkvæmdaáætlun í barnavernd, sem lögð var fram í vor, var blásið til stórsóknar en markmið hennar er að efla grunnvinnslu barnaverndarmála svo hægt verði að koma að vanda barna eins fljótt og auðið er. Hún gerir ráð fyrir aukinni samvinnu og samstarfi á milli ríkis og sveitarfélaga og er ætlað að auka framboð gagnreyndra úrræða svo um munar.

Sjónarmið barna og ungmenna fá aukið vægi
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fagnaði 30 ára afmæli í nóvember síðastliðinn. Í tilefni afmælisársins hef ég lagt sérstaka áherslu á að leita leiða til að auka þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda.

Í því skyni var afar ánægjulegt að vera viðstaddur fyrsta Barnaþing umboðsmanns barna sem haldið var í Hörpu í nóvember en niðurstöður þess voru afhentar ríkisstjórn í þinglok og munu hafa bein áhrif á aðgerðaráætlun sem er í undirbúningi í félagsmálaráðuneytinu um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun og ákvarðanatöku. Hún byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í vor um að allar stórar ákvarðanir sem og lagafrumvörp sem varða börn skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi þeirra. Erum við í þeim efnum komin lengra en margar aðrar þjóðir. Þá hefur á árinu farið fram vinna við hvernig raungera skuli þátttöku barna á markvissan hátt í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda og ég hef nýverið undirritað samning við Landssamband ungmennafélaga um formlegt samstarf í þeim efnum.

Öll sveitarfélög á Íslandi verði barnvæn
Við stöndum á krossgötum hvað varðar þjónustu við börn á Íslandi. Aukinn skilningur er að verða á því að raddir barna og Barnasáttmálinn eigi að liggja til grundvallar allri þjónustu og ákvörðunum sem varða líf yngri kynslóða. Til að undirstrika það má nefna að nýlega gekk félagsmálaráðuneytið til samninga við UNICEF um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF undir formerkjunum Barnvænt Ísland með það að markmiði að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmálans.

Mikilvægi þessa er ótvírætt. Börn sækja að stærstum hluta sína nærþjónustu til sveitarfélaga. Til að tryggja raunverulega barnvænt samfélag þurfa börn að njóta þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn kveður á um í sínu nærumhverfi á degi hverjum og því þarf innleiðingin ekki hvað síst að fara fram á þeim vettvangi.

Mælaborð um velferð barna
Samhliða því að bjóða sveitarfélögum að gerast barnvæn verður þeim boðið að nýta sér svokallað mælaborð um velferð barna. Mælaborðið er þróunarverkefni á vegum Kópavogsbæjar, félagsmálaráðuneytisins, Köru Connect og UNICEF á Íslandi. Með notkun mælaborðsins munu sveitarfélög geta greint með markvissum hætti þau tölfræðigögn sem til eru um velferð barna innan sveitarfélagsins og nýtt við stefnumótun, fjárhagsáætlanagerð og ákvarðanatöku. Markmiðið er að aðgerðir innan sveitarfélaga verði markvissari og nýtist þar sem þeirra er raunverulega þörf. Mælaborðið er nýjung sem eftir er tekið en það hlaut nýverið alþjóðleg verðlaun UNICEF fyrir framúrskarandi lausnir og nýsköpun í nærumhverfi barna.

Endurreisn fæðingarorlofskerfisins
Eitt helsta áherslumál mitt í embætti hefur frá upphafi verið að endurreisa og efla fæðingarorlofskerfið. Hámarksgreiðslur hafa þegar verið hækkaðar og samþykkt hefur verið að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf. Samhliða fer fram heildarendurskoðun laganna sem lýkur á næsta ári og mun án efa leiða til frekari umbóta.

Á árinu sem er að líða hef ég skynjað mikinn vilja til breytinga og hefur fólk verið tilbúið að leggjast árarnar með mér. Öðruvísi hefðum við ekki áorkað svo miklu. Ástæðan er í mínum huga sú að við getum flest verið sammála um að vilja gera betur fyrir börnin okkar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. desember 2019