Categories
Greinar

Framfaraskref til handa fjölskyldum og börnum

Deila grein

27/12/2019

Framfaraskref til handa fjölskyldum og börnum

Um síðustu áramót breytti ég embættistitli mínum í félags- og barnamálaráðherra. Ég vissi að við Íslendingar værum að gera margt vel þegar kemur að aðbúnaði barna en hafði þó orðið var við glufur íkerfinu. Í samvinnu við fjölda fólks hefur náðst ótrúlegur árangur á þessu eina ári sem nú er að líða og eru komnar útlínur að nýju velferðarkerfi fyrir börn á Íslandi. Því er meðal annars ætlað að grípa þau börn og fjölskyldur sem á þurfa að halda fyrr en verið hefur og tryggja öllum sveitarfélögum möguleika á markvissum stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá verður öllum sveitarfélögum á landinu boðið að nýta sér svokallað mælaborð um velferð barna. Það var þróað af Kópavogsbæ í samstarfi við UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið og gerir stjórnvöldum kleift að greina tölfræðigögn sem til eru um velferð barna og nýta við stefnumótun, fjárhagsáætlanagerð og ákvarðanatöku.

Mikil vinna liggur að baki þessum verkefnum en sérstaklega ánægjuleg er sú þverpólitíska samstaða sem hefur myndast um mikilvægi þess að setja fjölskyldur og börn í forgang.

Eitt helsta áherslumál mitt í embætti hefur frá upphafi verið að endurreisa fæðingarorlofskerfið og því afar gleðilegt að Alþingi skyldi fyrir jólin ná að samþykkja frumvarp mitt þess efnis að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði. Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafa þegar verið hækkaðar en auk þess stendur heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof yfir og lýkur á næsta ári. Bind ég vonir við að hún skili frekari umbótum.

Fjölskyldan er mikilvægasta eining samfélagsins og til þess að tryggja velferð barna er mikilvægt að horfa á aðstæður fjölskyldna í heild. Margt spilar þar inn í eins og efnahagur heimilanna og húsnæðismál en auk þess þarf að gæta að hlutum eins og jafnvægis atvinnu- og fjölskyldulífs. Allt eru þetta mál sem ég ætla mér að taka enn fastari tökum á nýju ári.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. desember 2019.