Categories
Greinar

DAGUR NORÐURLANDANNA

Deila grein

23/03/2020

DAGUR NORÐURLANDANNA

Í dag, 23. mars er dagur Norðurlandanna. Því miður var ekki hægt að flagga fánum Norðurlandanna við Alþingishúsið, líkt og gert hefur verið sl. ár, vegna aðstæðna. En mig langar að þessu tilefni að stikla á stóru í sögu norræns samstarfs, stofnunar og starfsemi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. En þess má geta að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gegnir nú stöðu samstarfsráðherra Norðurlandanna í ríkisstjórn Íslands og undirrituð gegnir stöðu forseta Norðurlandaráðs 2020 og er einnig formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á Alþingi. Norrænt samstarf hefur alltaf skipt Framsóknarflokkinn miklu máli og einnig verið ein af grunnstoðum í utanríkisstefnu Íslands frá stofnun lýðveldisins.

NORRÆN FÉLÖG OG VINABÆJARSAMSTARF
Fjöldi norrænna grasrótarsamtaka höfðu með sér samstarf þegar í lok 19. aldar. Grasrótarsamstarfið er enn þann dag í dag ein af meginstoðum formlega samstarfsins.

Norræna félagið var stofnað í Danmörku, Noregi og Svíþjóð árið 1919, á Íslandi árið 1922 og í Finnlandi 1924. Félögin hafa síðan verið drifkraftur í eflingu norræns samstarfs. Gott dæmi um norrænt samstarf er vinabæjasamstarfið. Árið 1948 voru viðræður um að stofna norrænt varnarbandalag en þeim viðræðum var slitið en Ísland, Danmörk og Noregur voru stofnaðilar NATO árið 1949.

Norðurlandaráð var svo stofnað árið 1952 af Danmörku, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Finnland sem á þeim tíma var undir miklum áhrifum frá nálægðinni við Sovétríkin með Stalín við stjórnvölinn varð aðili að ráðinu árið 1955 þegar hinn nýi leiðtogi, Krústjoff, boðaði þíðu í alþjóðasamskiptum.

FRÍVERSLUNAR – EFTA

Á sjötta áratug síðustu aldar voru áætlanir um norrænt fríverslunarsvæði og norrænt tollasamband, en niðurstaðan varð sú að Svíþjóð, Noregur og Danmörk samþykktu að ganga í þau samtök sem urðu að fríverslunarsamtökunum EFTA árið 1960. Finnland gekk í EFTA árið 1961. Ísland gerðist aðili árið 1970, og í skamman tíma tilheyrðu norrænu ríkin öll sama fríverslunarsvæði.

Samstarfið var hins vegar nánara og meira skuldbindandi innan Evrópubandalagsins (EB). Í júlí 1961 ákvað Stóra-Bretland að sækja um aðild að EB. Danmörk og Noregur sóttu einnig um aðild á þessu tímabili. Aðildarviðræður voru stöðvaðar í janúar 1963.

UNDIRRITUN HELSINKISÁTTMÁLANS 1962

En hinar breyttu aðstæður undangenginna ára urðu til þess að efla enn frekar óskina um formlegan samning um norrænt samstarf. Sá samningur var gerður í Helsinki 23. mars 1962 og þessi „Norræna stjórnarskrá“ er því alltaf kölluð Helsinki-sáttmálinn.

Frá 1968 þar til í upphafi árs 1970 áttu sér stað viðræður um norrænt efnahagssamstarf innan ramma hins svokallaða Nordek. Ekkert varð úr samstarfinu því Finnar töldu sig ekki geta tekið þátt vegna tengsla við Sovétríkin. Þessi misheppnaða tilraun hafði engu að síður annað í för með sér: Stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1971, sem er samstarfsvettgangur allra ráðherra norrænna ríkisstjórna.

INNGANGA Í ESB

Frá 1. janúar 1973 varð eitt Norðurlandanna, Danmörk, aðili að Evrópubandalaginu en hin fjögur voru utan bandalagsins. Norræna ráðherranefndin var einmitt stofnuð með það að markmiði að viðhalda norrænu samstarfi við þessar aðstæður.

Anker Jørgensen sem var forsætisráðherra Danmerkur flest árin fram til 1982 skrifaði í eftirmála við útgáfu á dagbóka sinna frá forsætisráðherratíðinni, að Danmörk gleymdi ekki norrænu samstarfi þrátt fyrir að vera komnir í evrópskt samstarf:

„Þvert á móti reyndum við á einhvern hátt að byggja brú milli Norðurlanda og Evrópu og það var líka það sem hin Norðurlöndin óskuðu eftir.“

Árið 1994 var kosið um aðild að ESB í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Kjósendur í Finnlandi og Svíþjóð samþykktu aðild, en meirihluti norskra kjósenda hafnaði henni í annað sinn. Svíþjóð og Finnland ásamt Austurríki gengu í ESB 1. janúar 1995.

UNDIR SAMA ÞAKI Í BERLÍN

Í október tóku norrænu ríkin fimm í notkun sameiginlega sendiráðsbyggingu í Berlín sem aftur var orðin höfuðborg Þýskalands. Árið 2007 myndaði Sambandsþingið í Berlín umgjörð hinnar árlegu þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins, PSPC, þar sem Norðurlandaráð hefur verið afar virkt allt frá fyrstu ráðstefnunni í janúar 1991 – hálfu ári fyrir fall Sovétríkjanna. Allt Eystrasaltssvæðið, að frátöldu rússneska yfirráðasvæðinu í kringum Pétursborg og Kalíníngrad, á nú aðild að ESB. Enn er afar náið samband milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en framtíðin mun leiða í ljóst í hvaða átt norrænt samstarf mun þróast.

SAMSTAÐA Á ERFIÐUM TÍMUM

Samstarf Norðurlandanna hefur ekki aðeins snúist um verslunar og viðskipti og alþjóðasamninga, heldur hefur norrænn almenningur sýnt hlýhug í verki á margan hátt þegar vinaþjóðir hafa átt í erfiðleikum. Dæmi um það eru t.d. þegar Íslendingar sendu matarböggla til bágstaddra barna í Noregi eftir síðari heimsstyrjöldina. Norðurlöndin sendu Íslendingum margvíslega aðstoð eftir gosið í Vestmannaeyjum 1973. Ríkisstjórnir norrænu landanna veittu m.a. háan fjárstyrk sem skyldi verja til að útvega nýtt húsnæði handa þeim sem höfðu orðið að flýja úr Eyjum. Seint gleymist rausnarskapur Færeyinga eftir snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík árið 1995. Norðurlöndin aðstoðuðu okkur eftir efnahagshrunið 2008 þegar önnur og stærri ríki neituðu hjálparbeiðnum okkar, ef frá eru taldir Pólverjar. Árið 2009 þegar hamfaraflóðin gengu yfir Asíu sendu Íslendingar flugvél til Tælands til að sækja slasaða Svía. Þetta eru aðeins örfá dæmi um norrænt samstarf og vináttu síðustu áratugi.

COVID-19

Yfirstandandi COVID-19 faraldur hefur undanfarið sett einstaklinga, fyrirtæki, ríki og allt alþjóðasamfélagið í óþekkta stöðu. Við þurfum á nágrönnum okkar að halda til að miðla upplýsingum og þekkingu sem er sérstaklega mikilvæg á tímum sem þessum. Nágrannar okkar í norðri eru nú sem fyrr, okkar mikilvægustu bandamenn. Ekki bara nú, á meðan COVID-19 veiran gengur yfir, heldur ekki síður þegar við hefjumst handa við að endurreisa þá samfélagslegu burðarstólpa sem sköðuðust.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.