Það er allnokkuð sérkennilegt að sjá nýjan fjármálaráðherra útskýra, hvað hann átti við með orðum sínum um íslensku krónuna í samtali við Financial Times á dögunum. Benedikt sagði í samtali við FT að til greina kæmi að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. Haft var eftir ráðherra og er hér vitnað í þýðingu Mbl.is: „Fjármálaráðherra Íslands hefur viðurkennt að það sé óforsvaranlegt fyrir landið að viðhalda sínum eigin fljótandi gjaldmiðli,…“. Að hans mati er krónan óforsvaranlegur gjaldmiðill og svo sem ekki miklu við það að bæta. Nema kannski helst að hér talar fjármálaráðherra íslensku krónunnar.
En krónan á sér alla vega einn samherja í ríkisstjórninni, forsætisráðherrann Bjarna Benediktsson. Vegna orða fjármálaráðherra var haft eftir forsætisráherra að; „…peningastefnunefnd sé að störfum og að grundvöllur þeirrar vinnu sé að krónan verði framtíðargjaldmiðill Íslands.“ Staðan er því þessi; peningastefnunefnd grundvallar sína vinnu á því að hér verði íslensk króna, fjármálaráðherra segir sömu krónu óforsvaranlega. Forsætisráðherra er lóðbeint ósammála frænda sínum fjármálaráðherranum. Alla vega í orði kveðnu. Bjarni hefur nefnilega ekki alltaf staðið með íslensku krónunni. Í heilsíðu auglýsingu 20. apríl 2009 hafði núverandi forsætisráðherra þetta að segja um evruna: Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að íslensk stjórnvöld og IMF (AGS) vinni að því í sameiningu að í lok efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil í sátt og samvinnu við Evrópusambandið.
Þetta var hið kalda mat forsætisráðherra á sínum tíma.
Mitt kalda mat er það að best sé að halda sig við krónuna, hún er ekki gallalaus, en grundvöllur efnahagslegs sjálfstæðis.
Sigurður Ingi Jóhannsson