Á nýliðnu þingi var samþykkt þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk til fjögurra ára, árin 2023-2027. Áætlunin hefur fengið nafnið Gott að eldastog er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Tilgangurinn með áætluninni er að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Á tímabilinu verður farið í þróunarverkefni og prófanir semkoma til með að nýtast til ákvarðanatöku um þjónustu við eldra fólk til framtíðar. Nú þegar hafa ráðuneytin auglýst eftir samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir sem vilja vinna að þróunarverkefnum um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.
Ólíkar þarfir
Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar er ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum auk þess sem eldra fólk lifir lengur með betri heilsu. Kröfur eldra fólks til þjónustu hafa að sama skapi breyst verulega frá því sem áður var því er þörf er á breyttum viðhorfum í þjónustu við eldra fólk með áherslu á aldursvænt, heilsueflandi og styðjandi samfélag. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur, það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. Það er afar mikilvægt að geta mætt einstaklingum á þeim stað þar sem þeir eru og þróa úrræði til þess að mæta mismunandi þörfum eldra fólks. Markmið allra aðgerða ætti ávallt að vera að bæta lífsgæði ásamt því að viðhalda færni og virkni einstaklingsins en forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stóran þátt í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar.
Gagnvirkt mælaborð
Í haust mælti undirrituð fyrir þingsályktunartillögu um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks eða svokallað gagnvirkt mælaborð. Það er ánægjulegt að sú hugmynd hafi nú verið tekin upp sem hluti af þessari áætlun. Gagnvirkt mælaborð hefur það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu eldra fólks í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við. Hingað til hafa ekki legið fyrir markvissar, samræmdar og tímanlegar upplýsingar um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma. Með mælaborði sem þessu getum við náð fram heildarmynd af stöðu eldra fólks á hverjum tíma fyrir sig og þannig geta stjórnvöld beint sjónum sínum að þeim verkefnum sem brýnast liggja við og forgangsraðað í rétta átt.
Ég fagna því góða verkefni sem hér er farið af stað með Gott að eldast og er viss um að það sé heillaspor til framtíðar. Eldra fólk þarf fjölbreytta og ólíka þjónustu og það er mikilvægt að þau fái að vera þátttakendur í öllum málum sem þau snerta.
Ingibjörg Isaksen Þingflokksformaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á vikurbladid.is 14. júní 2023.