Categories
Greinar

Er ekki bara best að vera hundur í Hafnarfirði?

Deila grein

04/05/2022

Er ekki bara best að vera hundur í Hafnarfirði?

Sagt er að hundar séu bestu vinir mannanna og í flestum tilfellum er það dagsatt.

Í  Hafnarfirði eru skráðir um 800 hundar og eflaust eru þeir nokkrir sem eru óskráðir. Það er þó erfitt að átta sig á fjölda hunda í Hafnarfirði en við göngur um bæinn má sjá að fjöldinn er nokkuð mikill.

Við í Framsókn viljum efla og byggja upp hundasvæðið sem staðsett er við Hvaleyrarvatnsveg.

Við viljum setja upp hundaleiktæki, þrautabraut og skolunarbúnað ásamt því að lagfæra og viðhalda hundasvæðinu. Þá viljum við einnig leggja áherslu á að hundasvæðinu yrði sinnt betur og nýjum ruslatunnum með hundpokum verði komið fyrir.

Það hefur verið ákall frá hundaeigendum að koma upp góðu hundasvæði í Hafnarfirði þar sem lausaganga er leyfð. Á kjörtímabilinu sem senn er að enda var sett upp gott hundagerði við kirkjugarðinn í suðurbænum. Það er vel nýtt og því nauðsynlegt að halda áfram að sinna stórum hópi hundaeigenda í Hafnarfirði vel.

„Ég er glaðasti, glaðasti, glaðasti hundur í heimi. Mér er klappað á hverjum degi og ég er að  fíla‘ða,“ segir í laginu glaðasti hundur í heimi eftir Friðrik Dór.

Er ekki bara best að botna lagið og syngja um glöðustu hundana í Hafnarfirði sem fá að hlaupa um frjálsir á hundasvæði, hitta vini sína, hnusa, hlaupa og digg‘aða?

Er ekki bara best að eiga hund í Hafnarfirði? Það verður það þegar upp er komið flott opið hundasvæði í heimabænum okkar þar sem við getum meira segja skolað bestu vini okkar áður en við höldum heim á leið. Það yrði líka kærkomið fyrir hafnfirska hundaeigendur að þurfa ekki að fara úr sveitarfélaginu til að komast á gott og opið hundasvæði.

Margrét Vala Marteinsdóttir,
skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði og hundaeigandi.

Greinin birtist fyrst á fjardarfrettir.is 4. maí 2022.