Categories
Greinar

Er ekki bara best að vera hundur í Hafnarfirði?

Deila grein

04/05/2022

Er ekki bara best að vera hundur í Hafnarfirði?

Sagt er að hundar séu bestu vinir mannanna og í flestum tilfellum er það dagsatt.

Í  Hafnarfirði eru skráðir um 800 hundar og eflaust eru þeir nokkrir sem eru óskráðir. Það er þó erfitt að átta sig á fjölda hunda í Hafnarfirði en við göngur um bæinn má sjá að fjöldinn er nokkuð mikill.

Við í Framsókn viljum efla og byggja upp hundasvæðið sem staðsett er við Hvaleyrarvatnsveg.

Við viljum setja upp hundaleiktæki, þrautabraut og skolunarbúnað ásamt því að lagfæra og viðhalda hundasvæðinu. Þá viljum við einnig leggja áherslu á að hundasvæðinu yrði sinnt betur og nýjum ruslatunnum með hundpokum verði komið fyrir.

Það hefur verið ákall frá hundaeigendum að koma upp góðu hundasvæði í Hafnarfirði þar sem lausaganga er leyfð. Á kjörtímabilinu sem senn er að enda var sett upp gott hundagerði við kirkjugarðinn í suðurbænum. Það er vel nýtt og því nauðsynlegt að halda áfram að sinna stórum hópi hundaeigenda í Hafnarfirði vel.

„Ég er glaðasti, glaðasti, glaðasti hundur í heimi. Mér er klappað á hverjum degi og ég er að  fíla‘ða,“ segir í laginu glaðasti hundur í heimi eftir Friðrik Dór.

Er ekki bara best að botna lagið og syngja um glöðustu hundana í Hafnarfirði sem fá að hlaupa um frjálsir á hundasvæði, hitta vini sína, hnusa, hlaupa og digg‘aða?

Er ekki bara best að eiga hund í Hafnarfirði? Það verður það þegar upp er komið flott opið hundasvæði í heimabænum okkar þar sem við getum meira segja skolað bestu vini okkar áður en við höldum heim á leið. Það yrði líka kærkomið fyrir hafnfirska hundaeigendur að þurfa ekki að fara úr sveitarfélaginu til að komast á gott og opið hundasvæði.

Margrét Vala Marteinsdóttir,
skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði og hundaeigandi.

Greinin birtist fyrst á fjardarfrettir.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Fyrir fólkið, fyrst og fremst

Deila grein

19/04/2022

Fyrir fólkið, fyrst og fremst

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar árið 2018 sögðumst við ætla að lækka álögur á fjölskyldufólk með hinum ýmsu aðgerðum. Þær aðgerðir voru m.a. stóraukinn systkinaafsláttur á leikskólagjöldum, gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna og hækkun frístundastyrks. Allt sett fram með það að markmiði að öll börn hefðu jöfn tækifæri; jafnan aðgang að góðu heilsusamlegu fæði og gætu notið sín í íþróttum og tómstundum, óháð efnahag. Við ætluðum að fjárfesta í fólki og það gerðum við.

Aukinn systkinaafsláttur

Allt eru þetta baráttumál okkar í Framsókn. Fyrsta verk var að stórauka systkinaafslátt á leikskólagjöldum. Áður en við tókum við var greitt fullt gjald fyrir barn nr. 1, 50% afsláttur var fyrir barn nr. 2 og 75% afsláttur var fyrir barn nr. 3. Við breyttum þessu strax og í dag er áfram fullt gjald fyrir barn nr. 1, 75% afsláttur er fyrir barn nr. 2 og ekki er lengur greitt fyrir fleiri börn. Systkinaafslátturinn á einnig við vegna barna í frístund sem eiga annað systkini í frístund eða systkini samtímis í leikskóla eða hjá dagforeldri.

Grunnur að góðum degi

Á kjörtímabilinu var byrjað að bjóða upp á hafragraut í öllum skólum í Hafnarfirði, bæði fyrir nemendur og starfsfólk, þeim að kostnaðarlausu. Til viðbótar innleiddum við nýjan systkinaafslátt á skólamáltíðir grunnskólabarna. Fyrsta skrefið var stigið í upphafi kjörtímabils þegar ekki var greitt fyrir fleiri en tvö börn. Næsta skref var svo stigið við gerð síðustu fjárhagsáætlunar og nú er að hámarki greitt fyrir 1,75 barn. Við höfum því hafið þá vegferð okkar í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum með mjög markvissum og skilvirkum skrefum. Á næsta kjörtímabili munum við stíga skrefið til fulls.

„Vertu þú sjálf­ur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálf­ur, eins og þú ert“

Við höfum hækkað frístundastyrkinn á kjörtímabilinu. Markmiðið er að gera börnum kleift að taka þátt í skipulögðu starfi óháð efnahag fjölskyldna. Einnig á styrkurinn að vinna gegn óæskilegu brotthvarfi í eldri aldurshópum iðkenda. Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til að njóta sín. Hér vitnum við í texta úr lagi Helga Björnssonar sem við þekkjum svo vel og vísar til mikilvægi þess að hver og einn verði að hafa svigrúm og stuðning til að vera hann sjálfur, finna hvar áhuginn liggur, styrkleikinn og geti með þeim hætti blómstrað í lífinu. Það styrkir samfélagið og gerir það betra og fallegra.

Á næsta kjörtímabili ætlum við koma á frístundastyrk fyrir öll börn til 18 ára en núna er frístundastyrkur eingöngu fyrir börn á grunnskólaaldri.

Fjárfestum í fólki

Það er því ljóst að við höfum aukið ráðstöfunartekjur barnmargra heimila og fjölskyldna í Hafnarfirði á kjörtímabilinu. Við höfum fjárfest í fólki. Við ætlum að halda áfram að gera samfélagið betra og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri til að blómstra, vaxa og dafna í okkar góða bæ fáum við til þess áframhaldandi umboð. Framtíðin ræðst á miðjunni – XB.

Valdimar Víðisson, skólastjóri og oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Stuðlaskarðs og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2022.