Categories
Greinar

Er kaupmönnum treystandi?

Deila grein

10/07/2015

Er kaupmönnum treystandi?

Þorsteinn-sæmundssonFramkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sendi mér kveðju í útvarpsþætti á föstudaginn fyrir viku. Kann ég honum maklegar þakkir fyrir. Í kveðjunni fann framkvæmdastjórinn að því að undirritaður hvatti almenning nýlega úr ræðustól Alþingis til að sniðganga fyrirtæki sem gengið hafa á undan með hækkun á vöruverði í kjölfar kjarasamninga.

Nú er það svo að sá sem hér ritar er kjörinn á þing af íslenskum almenningi og sækir þangað umboð sitt. Ef það er svívirðilegt eða populismi eða hvað það annað sem framkvæmdastjórinn bar mér á brýn í viðtalinu að gæta hagsmuna almennings, vinnuveitenda minna, skal ég glaður gangast við því að vera hvort tveggja svívirðilegur og populisti. Sá sem hér ritar hefur undanfarin tvö ár gagnrýnt íslenska verslun töluvert. Ég hef einnig tekið fram að ekki eru öll verslunarfyrirtæki undir sömu sök seld. Ég hef bent á að gengisstyrking krónu hefur ekki skilað sér í lægra vöruverði, niðurfellingar og/eða lækkaðar álögur skila sér seint, illa eða alls ekki.

Flest framangreint var staðfest í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins.

Á undanförnum tveimur árum hef ég skorað á kaupmenn að bæta ráð sitt, beðið þá, brýnt þá en lítið gagnast. Lengi vel var því haldið fram að undirritaður færi með rangt mál, ef ekki beinlínis ósannindi um málefni verslunarinnar. Loks nú nýlega hikstaði framkvæmdastjóri SVÞ því upp í útvarpsþætti að víst væri eitthvað til í að gengisstyrking hefði ekki verið skilað að fullu vegna þess að verslunin væri að bæta sér upp meint tjón í hruninu fyrir sjö árum.

Ekki kom fram í máli framkvæmdastjórans þá hversu mikið meint tjón væri eða hversu lengi íslenskir neytendur ættu að greiða yfirverð þar til meint tjón verslunarinnar væri að fullu bætt. Í útvarpsviðtalinu á föstudaginn fyrir viku kvað hins vegar við annan tón. Þegar minnst var á að vörugjaldslækkun, sem tók gildi um sl. áramót, á sykri og sykruðum vörum skilaði sér seint og illa sagði framkvæmdastjórinn eitthvað á þá leið að á Íslandi væri frjáls álagning og að samkeppnin á markaði hér (sic) myndi sjá um að lækkanir skiluðu sér til neytenda. Verslanir sem gætu verðlagt sig hátt myndu einfaldlega gera það. Það er einmitt það.

Fyrirsvarsmenn íslenskrar verslunar kveinka sér undan alþjóðlegri samkeppni og telja tolla sem enn eru við lýði skekkja samanburð. Nú er einmitt tækifæri til að gaumgæfa hverju nýframkomnar breytingar á gjöldum hafa breytt í því efni. Það er verðugt verkefni verslunar, samtaka launafólks, neytendasamtaka og stjórnvalda. Þá verður máski möguleiki að varpa ljósi á verðmyndun á Íslandi að einhverju leyti. Þá mun koma í ljós hvort kaupmönnum er treystandi.

Þangað til hvet ég neytendur til að sniðganga þau fyrirtæki á lista Neytendasamtakanna sem hækka vöruverð þessa dagana og sem draga lappirnar í að skila lækkun vörugjalda og styrkingu krónu út í verðlagið.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2015.