Categories
Greinar

Sólskin í kortunum

Deila grein

09/07/2015

Sólskin í kortunum

Silja-Dogg-mynd01-vefÞað er gott að búa á Íslandi. Við getum búið hvar sem er, á stað þar sem veðrið er betra, þar sem vextir eru lægri, ávextir ódýrari og mannlífið fjölbreyttara. En við veljum að búa hér. Veðrið mætti reyndar vera betra.

Þakklætið er vanmetið

Vextir mættu eða ættu öllu heldur að vera lægri. Við þurfum virkilega að vinna að umbótum á húsnæðiskerfinu og það væri óskandi að neytendalán væru ekki verðtryggð. En við megum ekki gleyma að þakka fyrir það sem við höfum og það sem vel er gert því að þakklætið er vanmetið. Bjartsýnin ein og sér leysir þó ekki verkefnin. Við þurfum að vera einbeitt og samstiga við úrlausn þeirra.

Sóknin er hafin

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar setti á oddinn að komið yrði til móts við skuldsett heimili og lagði fram aðgerðaáætlun í tíu liðum sumarið 2013. Ein af þessum tíu aðgerðum var að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán heimilanna. Leiðréttingin var sanngjörn jafnræðisaðgerð sem þjóðin sjálf valdi að farið yrði í í kosningunum 2013.

Óveðursskýin yfir landinu eru á hröðu undanhaldi. Það glittir víða í heiðan himin og sólargeislar eiga greiðari aðgang að landinu en áður. Aðgerðaáætlun um afnám hafta er einn af þessum sólargeislum. Almenn ánægja ríkið með áætlunina. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt sé að afnema fjármagnshöft og fjármunir sem myndast vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts verða nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem kemur okkur öllum til góða.  Uppbygging heilbrigðiskerfisins er annað stórverkefni sem ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á. Ríkisframlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri og árlegt fé til tækjakaupa á Landspítalanum hefur fimmfaldast frá árinu 2012. Framlög til annarra heilbrigðisstofnana hafa einnig verið aukin. Endurskoðun á almannatryggingakerfinu stendur yfir og er komin langt á veg.

Aukinn jöfnuður

Þessa dagana reyna forystumenn nokkurra flokka að telja almenningi trú um að hér á landi ríki ójöfnuður og halda því fram að ójöfnuður hafi aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessar fullyrðingar forystumannanna eru rangar. Það rétta er að ójöfnuður hefur ekki aukist, hann hefur minnkað í stjórnartíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Einhver vill halda því fram að þeir tekjuhærri hafi lækkað í launum og því hafi jöfnuður í samfélaginu aukist. En það er ekki raunin. Þeir sem hafa lágar tekjur og millitekjur, hafa hækkað í launum og þeir sem hærri hafa tekjurnar hafa staðið í stað. Þessar upplýsingar eru settar fram á greinargóðan hátt á heimasíðu Hagstofunnar (www.hagstofan.is). Þær koma fram í frétt sem birtist þann 5. júní sl. undir yfirskriftinni „Dreifing tekna jafnari en áður“. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur einnig fram að Ísland er nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. Verðbólgan hefur verið lítil sem engin um langt skeið og kaupmáttur launa mælist nú hærri en nokkru sinni fyrr. Höfum þessar staðreyndir í huga.

Vinna, vöxtur, velferð

Að þessu sögðu þá held ég að flestir geti verið að árangur ríkisstjórnarinnar er bara nokkuð góður þegar horft er á heildarmyndina. Hún er augljóslega á réttri leið. Þrátt fyrir ágætt ástand eigum við þó að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátara samfélag og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.

Eitt og eitt þungbúið ský sveimar þó enn yfir höfðum okkar. Breytingar á húsnæðiskerfinu eru til dæmis orðnar mjög aðkallandi. Markmið okkar er að tryggja möguleika allra á að búa við öryggi og tryggja jafnræði í aðgangi að íbúðalánum óháð búsetu. Því miður tókst ekki að klára þau frumvörp sem unnið hefur verið að í velferðarráðuneytinu síðustu tvö árin en ég geri ráð fyrir að frumvörpin og afrakstur þeirra birtist okkur strax á haustdögum. Góðir hlutir gerast hægt, en viljinn er svo sannarlega fyrir hendi.

Annað verkefni sem er orðið mjög aðkallandi er afnám verðtryggingar. Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar á neytendalánum hefur skilað niðurstöðu í samræmi við stjórnarsáttmálann og ríkisstjórnin hefur samþykkt að unnin verði frumvörp á þeim grundvelli.

Hagvöxtur aldrei meiri

Frá því að ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við hefur hagvöxtur á Íslandi verið einn sá mesti í Evrópu. Ríkið er hætt að safna skuldum sem skapar tækifæri til frekari fjárfestinga í innviðum samfélagsins.

Verkefnin framundan eru fjölmörg. Við viljum gera gott betra. Bjartsýni og jákvæðni er undirstaða þess að okkur takist að skapa betra samfélag fyrir okkur öll.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 7. júlí 2015.