Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn útfærslu á uppbyggingu innviða og vernd náttúru á ferðamannastöðum. Um þessar mundir er unnið að frumvarpi um áætlunina í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem fer með forræði málsins.
Í fyrsta sinn hér á landi er unnið að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið, en hingað til hefur skort á skýra stefnumörkun og yfirlit yfir vandann á ferðamannastöðum. Slík áætlun er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að ráðast í verndaraðgerðir og takast á við uppbyggingu innviða með skipulögðum hætti.
Samkvæmt útfærslunni færi úthlutun á fjármagni til ferðamannastaða í gegnum stýrihóp sem hefði umsjón með gerð tólf ára stefnumarkandi áætlunar en innan hennar verði þriggja ára verkefnaáætlanir. Einnig verði settur á fót samráðshópur, þar sem hagsmunaaðilar eigi sæti, sem vinni með stýrihópnum. Stýrihópurinn leggi tillögur sínar að tólf ára áætluninni á þriggja ára fresti fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra sem legði þær fram á Alþingi í formi þingsályktunar í samráði við ráðherra ferðamála.
Stýrihópurinn hefði endanlegt vald um gerð þriggja ára verkefnaáætlunarinnar sem úthluti fjármagni sem yrði til við gjaldtöku, en ráðherra ferðamála útfærir leiðir til tekjuöflunar.
Áhyggjur fólks hafa að einhverju leyti snúist um hverjir fái aðkomu að sjóðnum þegar gjaldtakan hefst og úthlutun á fjármagninu. Samkvæmt útfærslunni er áhersla lögð á víðtækt samráð við gerð framkvæmdaáætlunar og verkefnaáætlana þar sem gert er ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga, ferðaþjónustunnar, landeigenda, opinberra stofnana, háskóla, frjálsra félagasamtaka og hagsmunasamtaka auk ráðuneyta umhverfismála, ferðamála og fjármála.
Hér er um ákveðin tímamót að ræða. Meginmarkmiðin eru að náttúran sé vernduð, að komið sé í veg fyrir náttúruspjöll og þau lagfærð, dregið sé úr raski, álagi sé dreift og ný svæði metin, uppbygging falli vel að heildarsvipmóti lands og öryggi ferðamanna sé tryggt.
Haraldur Einarsson
Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. apríl 2014
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.