Forfeður okkar áttuðu sig snemma á mikilvægi þekkingar og hversu mikilvægt það væri að afla sér nýrrar þekkingar með því að ferðast á vit nýrra ævintýra en svo er kveðið á í Hávamálum:
Vits er þörf
þeim er víða ratar.
Dælt er heima hvað.
Að augabragði verður
sá er ekki kann
og með snotrum situr.
Ég geri ráð fyrir að þessari heimspeki Hávamála hafi fremur verið beint til okkar heimafólks um að sækja okkur þekkingu ytra en að Ísland yrði sá staður sem yrði heimsóttur ríkulega. Staðreyndin er hins vegar sú að á skömmum tíma hefur ferðaþjónustan vaxið í eina af stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar.
Ferðaþjónusta skapaði 553 milljarða króna verðmæti fyrir samfélagið árið 2019 og munar um minna! Sama ár námu beinar gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 383 ma.kr. eða 8,6% af vergri landsframleiðslu. Vegna þessa hefur stöðugleiki gjaldmiðilsins aukist og gjaldeyrisforði þjóðarbúsins styrkst verulega. Aukinheldur má segja að ferðaþjónustan sé ein árangursríkasta byggðaaðgerð Íslandssögunnar, sjálfsprottin atvinnuupbygging um allt land. Á árunum 2009-2019 skapaði ferðaþjónusta að jafnaði 500 ný störf á ári á landsbyggðinni. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi þróun tapist ekki.
Það hefur engum dulist að áhrif heimsfaraldursins hafa komið hlutfallslega verr við ferðaþjónustuna en ýmsar aðrar atvinnugreinar. Að sama skapi hefur það varpað enn skýrara ljósi á það hversu mikilvæg ferðaþjónustan er fyrir efnahagslífið. Því hafa stjórnvöld lagt þunga áherslu á að styðja við greinina til þess að tryggja að hún lendi á báðum fótum eftir heimsfaraldur og verði vel undir það búin þegar fólksflutningar milli landa aukast enn frekar að nýju. Það er augljóst að þeim mun hraðari sem viðspyrna ferðaþjónustunnar verður, þeim mun minni verður samfélagslegur kostnaður af faraldrinum til lengri tíma.
Ferðaþjónustan hefur einnig átt stóran þátt í að auka lífsgæði okkar með ríkulegra mannlífi, nýstárlegu framboði af afþreyingu og góðum mat og gefið Íslendingum tækifæri á að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tekin. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylgir ferðaþjónustunni hefur einnig aukið skilning landsmanna á eigin landi og varpað ljósi á hversu sérstakt það er fyrir margra hluta sakir. Það er ánægjulegt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim náttúru okkar, sögu og menningu. Til að styðja enn frekar við það munu stjórnvöld meðal annars halda áfram að styðja við markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar. Þannig tryggjum við áframhaldandi sókn fyrir ferðaþjónustuna til að skapa ný ævintýri og þekkingu, þar sem speki Hávamála er höfð að leiðarljósi.
Höfundur er ferðamálaráðherra.
Höfundur: Lilja Alfreðsdóttir
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. desember 2021.