Categories
Greinar

Fílabeinsturninn er hættulegur staður

Deila grein

21/01/2014

Fílabeinsturninn er hættulegur staður

Silja Dögg GunnarsdóttirÁ gervihnattaöld geta allir sem vilja fylgst með störfum þingsins og haft áhrif á þau. Það er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi. Umræðan þarf að vera opin og gagnrýnin. En málflutningur þarf að byggjast á rökum og skynsemi svo hann sé til gagns, ekki niðurrifs.

Tenging við veruleikann

Fílabeinsturninn er ekki eftirsóknarverður staður fyrir þingmann. Ef þingmaður er svo óheppinn að rata þangað þá rofnar samband við borgarana og þá er voðinn vís. Alþingismenn eru í þjónustuhlutverki og eiga að miðla upplýsingum frá sínum kjósendum til Alþingis og vinna fyrir þá.

Þó svo að Alþingismenn geri flestir sitt besta til að vera í góðu sambandi við sitt fólk og fylgjast vel með samfélagsmálum, þá er margt sem getur farið fram hjá þeim í erli dagsins. Skilaboð og athugasemdir frá borgurunum er því oftast vel þegin og nauðsynleg svo umræðan á Alþingi endurspeglir þarfir og væntingar samfélagsins. Aðeins þannig verður umræðan lýðræðisleg og í tengslum við veruleikann utan múra Alþingis.

Þú getur haft áhrif á störf þingsins

Á heimasíðu Alþingis er gríðarlegar miklar upplýsingar að finna (www.althingi.is). Þar er hægt að horfa á beinar útsendingar frá þingfundum, lesa öll þingskjöl, þ.e. fyrirspurnir til ráðherra og svör þeirra, þingsályktunartillögur og frumvörp langt aftur í tímann. Þar getur fólk fundið allar upplýsingar um þingmenn, bakgrunn þeirra, störf á þingi og það mikilvægasta, hvernig hægt er að ná sambandi við þá. Þeir sem áhuga hafa geta skráð sig á póstlista og fylgst þannig náið með ferli ákveðinna mála og einnig sent inn umsagnir um mál.  Þannig að aðgengi fólks að störfum Alþingis er mjög gott. Menn verða bara að vita hvar á að leita. Flestir þingmenn eru líka með Fésbókarsíður og jafnvel blogg þar sem þeir deila reglulega efni sem tengist störfum þeirra. Að sjálfsögðu er líka öllum velkomið að koma í Alþingishúsið á meðan á þingfundum stendur og fylgjast með af þingpöllum.

Sextíu og þrír þingmenn. Fólk með hugsjónir. En þessir sextíu og þrír einstaklingar eru þó ekki alltaf sammála um hvaða leiðir er best að fara. En markmiðið er skýrt; betra samfélag fyrir alla.

(Áður birtar greinar um störf þingsins: Hvað gerir þú á daginn og Tómur þingsalur.)

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir