Menntatækifæri hafa margfeldisáhrif í samfélaginu en ekki síst fyrir smærri byggðarlög. Þegar foreldrar ákveða búferlaflutninga leika menntunartækifæri barna þeirra og ungmenna stórt hlutverk, og það sama gildir um aðgengi þeirra að íþrótta- og tómstundastarfi.
Grípum til aðgerða
Nú blasir við mikill slaki í efnahagslífinu og hagkerfinu. Töluverð óvissa ríkir um innlenda efnahagsþróun á komandi misserum, af innlendum orsökum en ekki síður vegna aukinnar óvissu um alþjóðlegar hagvaxtarhorfur.
Til þess að koma í veg fyrir lítinn eða jafnvel engan hagvöxt á næsta ári þarf að grípa til aðgerða og veita viðspyrnu. Það er því rétti tíminn fyrir öll sveitarfélög og ríkisvaldið að forgangsraða í þágu menntunar.
Betri fjárhagsstaða námsmanna
Ríkisstjórnin hefur nú þegar á teikniborðinu áform um aukna fjárfestingu í menntakerfinu hér á landi. Nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningi við námsmenn. Það mun leiða til betri fjárhagsstöðu námsmanna og skuldastaða þeirra að námi loknu mun síður ráðast af fjölskylduaðstæðum, þar sem foreldrar í námi fá fjárstyrk en ekki lán til að framfleyta börnum sínum. Það stuðlar að betri nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni og þjóðhagslegum ávinningi fyrir samfélagið.
Tölum við tækin á íslensku
Meðal annarra mikilvægra fjárfestingaverkefna má einnig nefna máltækniáætlun stjórnvalda, sem þegar hefur verið fjármögnuð. Það er afar mikilvægt að gera íslenskuna gjaldgenga í stafrænum heimi og þróa tæknilausnir sem gera okkur kleift að eiga samskipti við snjalltækin okkar á íslensku. Jafnframt hefur verið fjárfest ríkulega í framhaldsskólamenntun og þá hefur rekstrarforsendum starfsmenntaskóla verið gjörbreytt.
Nýir skólar á teikniborðinu
Meðal innviðafjárfestinga sem eru einnig fram undan í menntakerfinu má nefna byggingu Húss íslenskunnar sem nú er í fullum gangi, byggingu félagsaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, viðbyggingu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og uppbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík. Jafnframt er á teikniborðinu undirbúningur að nýjum listaháskóla og nýjum Tækniskóla.
Jöfn tækifæri til menntunar
Menntun er lykillinn að framtíðinni. Á okkur hvílir nú sú skylda að horfa fram á við, setja metnaðarfull markmið og grípa til verka. Það er dauðafæri til að koma með meiri innspýtingu og flýta framkvæmdum. Margar þessara framkvæmda eru löngu tímabærar og markmið þeirra allra er að efla menntun og menningu í landinu. Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við viljum tryggja öllum börnum og ungmennum slík tækifæri.
Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson alþingismenn Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars 2020.