Vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélaga stendur sem hæst þessi misserin. Sveitarstjórnarfólk um allt land vinnur nú að því að rýna í fjárhagsstöðu síns sveitarfélags og forgangsraða fjárheimildum til málaflokka, framkvæmda og fjárfestinga. Stærstur hluti af ráðstöfunartekjum sveitarfélagsins fer í að standa straum ef þeim kostnaði sem fellur undir þá grunnþjónustu sem sveitarfélaginu ber að sinna. Öðrum verkefnum og fjárfestingum er forgangsraðað eftir áherslum pólitískra fulltrúa á hverjum tíma.
Líðan ungs fólks
Andleg og líkamleg heilsa barna og unglinga er grunnurinn að velferð þeirra í lífinu. Á síðasta sveitarstjórnarfundi lagði ég til að sveitarstjórn í Borgarbyggð myndi sameinast um að leggja sérstaka áherslu á stuðning við íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga í sveitarfélaginu til framtíðar ásamt því að leggja meiri þunga í forvarnarstarf. Mikil umræða hefur verið síðasta árið um líðan barna og unglinga hér á landi ásamt almennri vakningu í samfélaginu um andlega sjúkdóma, eins og þunglyndi og kvíða, auk staðreynda um aukna lyfjanotkun ungmenna og skelfilegar afleiðingar sem þær hafa valdið. Þökk sé þeim sem hafa opnað á þessa umræðu.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að reglubundin hreyfing getur dregið verulega úr þunglyndi og kvíða, rannsóknir sýna einnig fram á minni einkenni þunglyndis og annarra geðraskana hjá einstaklingum sem stunda reglubundna hreyfingu. Einnig hefur það komið fram að sterk tengsl eru á milli jákvæðrar sjálfsmyndar í æsku og getu til að setja sér markmið og þess að takast á við erfileika í daglegu lífi á fullorðinsárum.
En hvað getum við sem sveitarfélag gert til þess að vinna að því að börnin okkar vaxi og dafni sem sterkir einstaklingar? Það er sameiginlegt verkefni á ábyrgð okkar allra sem komum að uppeldi og umhverfi barna á einn eða annan hátt að vinna að því að þeim líði vel í eigin skinni og dafni sem ábyrgir og sterkir einstaklingar. Sýni þrautseigju í daglegum verkefnum og temji sér umburðarlyndi og virðingu gagnvart umhverfinu og öðrum. Eins og sagt hefur verið oft áður, það þarf heilt samfélag til að ala upp barn.
Sjálfboðaliðastarfið ómetanlegt
Um allt land hafa sjálfboðaliðar unnið óteljandi vinnustundir til að halda úti íþrótta- og tómstundastarfi. Saga skipulagðs íþróttastarfs fyrir börn og unglinga á sér langa sögu í Borgarbyggð. Aðstaða til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu hefur verið að byggjast upp á löngum tíma og hefur tekið mið af öllum þeim fjölbreyttu íþróttagreinum sem hafa verið stundaðar af kappi hér um áraraðir. Íþrótta- og tómstundastarf sem hefur verið drifið áfram af þrautseigju og óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi foreldra og aðstandenda barna. Um allt land hefur fólk unnið óteljandi vinnustundir í sjálfboðaliðavinnu til að halda úti íþrótta- og tómstundastarfi. Sjálfboðaliðastarf sem oft á tíðum er ekki öllum sýnilegt og eflaust ekki margir sem hafa gert sér í hugarlund hver staðan væri t.a.m. í okkar sveitarfélagi ef ekki hefði verið fyrir það óeigingjarna starf sem fólk hefur unnið til að halda upp starfseminni frá upphafi iðkunnar.
Greinar eiga undir högg að sækja
Hvernig verður staðan þegar við höfum ekki alla þessa sjálfboðaliða sem halda uppi starfinu?
Hvernig samfélag verður Borgarbyggð ef börnum og unglingum mun ekki standa lengur til boða að stunda íþróttir?
Kostnaður við rekstur hjá íþróttafélögum hefur aukist síðustu ár. Öll umgjörð um þjálfun barna og starfsemi íþróttafélaga í dag tekur mið af þeim eðlilegu kröfum sem gerðar eru til þeirra sem hafa með börnin okkar að gera í frístundum. Það er staðreynd sem við verður að horfast í augu við að í nútíma samfélagi þar sem lífsmynstur fólks er fjölbreytt að alltaf verður erfiðara að fá fólk til að vinna sjálfboðaliðastörf. Þetta á við um hvaða félagsstarf sem er. Þeim fækkar einstaklingunum sem gefa kost á sér í þessi störf og hættan er sú þeir fáu sem eftir eru gefist upp. Hvað þá? Við erum þegar farin að sjá að ákveðnar greinar eiga undir högg að sækja eins og t.d. sunddeild Skallagríms sem hefur ekki getað boðið uppá sundæfingar eins og áður.
Aukin kostnaðarþátttaka nauðsynleg
Undirrituð telur nauðsynlegt að sveitarfélagið Borgarbyggð – Heilsueflandi samfélag, geri áætlun til framtíðar og fjárfesti í heilsu og velferð barnanna okkar með markvissri uppbyggingu sjálfsmyndar og áherslu á aukin lífsgæði.
Kostnaður við rekstur á barna- og unglingastarfi í t.a.m. knattspyrnu og körfubolta er um 8 – 12 milljónir króna á ári. Framlag sveitarfélagsins til reksturs barna- og unglingastarfs er í dag rétt um 6% af kostnaði, hluti kostnaðar næst með æfingagjöldum, en það skiptir tugum milljóna á hverju ári sem íþróttafélögin þurfa að afla gegnum fjáraflanir ýmiskonar og reiða sig á styrki frá fyrirtækjum.
Sveitarfélagið verður að byggja áætlanir sínar til framtíðar á því að kostnaðarþátttaka verði aukin í rekstri íþrótta- og tómstundastarfs barna. Sveitarfélagið gæti t.a.m. létt á íþróttafélögunum með því að standa í meira mæli straum af kostnaði við þjálfun og þjálfaranámskeið. Við höfum með þekkingu og reynslu fagfólks ótal tækifæri til að vinna á heildrænan og markvissan hátt með þverfaglegum aðgerðum að því að stuðla að heilbrigði barna og unglinga. Það er okkar viðfangsefni að skapa aðstæður og efla vitund í okkar samfélagi sem gera fólki auðvelt að stunda heilsueflandi líf. Forvarnir og lýðheilsa eiga ekki að falla undir skammtímaverkefni eða átök. Við höfum ekki efni á að glata því starfi sem hefur verið unnið í uppbyggingu á íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu. Verum ábyrg og framsækin. Hér þarf að horfa til framtíðar, ávinningurinn verður skýr þegar fram líða stundir. Fjárfestum í heilsu og vellíðan barnanna.
Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknar í sveitarstjórn Borgarbyggðar.
Greinin birtist fyrst í Skessuhorni 25. september 2019.