Categories
Greinar

Flæðilínan sem gefur og gefur

Deila grein

25/01/2022

Flæðilínan sem gefur og gefur

Und­an­far­in sunnu­dags­kvöld hef­ur hug­ur lands­manna sveimað vest­ur á firði til þess að fylgj­ast með uppá­tækj­um þeirra Hörpu, Gríms, Jóns, Ein­ars, Ellu Stínu og annarra við rekst­ur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­is í sjón­varpsþátt­un­um Ver­búðinni sem fengið hafa verðskuldaða at­hygli fyr­ir mikla fag­mennsku og gæði. Þætt­irn­ir eru enn ein staðfest­ing á þeim mikla krafti sem býr í ís­lenskri kvik­mynda­gerð en grein­in hef­ur verið áber­andi í ís­lensku menn­ing­ar- og at­vinnu­lífi und­an­far­inn ára­tug og velta grein­ar­inn­ar hef­ur þre­fald­ast á þeim tíma en vel á fjórða þúsund starfa við kvik­mynda­gerð.

Í takt við rót­tæk­ar breyt­ing­ar á sam­fé­lög­um heims­ins, sem gjarn­an eru kennd­ar við fjórðu iðnbylt­ing­una, er kallað eft­ir því að fjöl­breytt­ari stoðum verði skotið und­ir ís­lenskt at­vinnu­líf með áherslu á grein­ar sem byggj­ast á hug­viti, há­tækni, sköp­un og sjálf­bær­um lausn­um. Ekki fer milli mála að kvik­mynda­gerð fell­ur að öllu leyti að þess­ari skil­grein­ingu, enda er hún ört vax­andi skap­andi grein sem hef­ur alla burði til að styðja enn frek­ar við verðmæta­sköp­un og sam­keppn­is­hæfni þjóðarbús­ins á næstu árum og ára­tug­um.

Sí­fellt fleira ungt fólk vill starfa við skap­andi grein­ar, eins og kvik­mynda­gerðina. Þá eru kvik­mynd­ir mik­il­væg­ur þátt­ur í alþjóðlegri markaðssetn­ingu Íslands sem lands lista og skap­andi greina og í að laða er­lenda ferðamenn til lands­ins. Af þessu má álykta að með auk­inni fjár­fest­ingu muni grein­in geta skilað þjóðarbú­inu tals­vert meiri verðmæt­um en hún ger­ir nú.

Með þetta í huga kynntu stjórn­völd nýja kvik­mynda­stefnu til árs­ins 2030. Velta kvik­mynda- og sjón­varps­fram­leiðslunn­ar eru tæp­ir 30 ma.kr. á árs­grund­velli og tæp­lega 2.000 ein­stak­ling­ar starfa í grein­inni. Um er að ræða fyrstu heild­stæðu kvik­mynda­stefn­una sem unn­in hef­ur verið hér á landi en hún var afrakst­ur góðrar sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs. Stjórn­völd hafa ein­hent sér í að fylgja hinni nýju stefnu eft­ir af full­um krafti. Þannig voru til dæm­is fjár­mun­ir strax tryggðir til þess að koma á lagg­irn­ar há­skóla­námi í kvik­mynda­gerð við Lista­há­skóla Íslands og á fjár­lög­um þessa árs má finna rúm­lega 500 m.kr. hækk­un til kvik­mynda­mála – sem að stærst­um hluta renn­ur til fram­leiðslu á kvik­mynda- og sjón­varps­efni. Á kjör­tíma­bil­inu verða einnig stig­in stór skref í að auka alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­gerðar hér á landi með hærri end­ur­greiðslum á skýrt af­mörkuðum þátt­um til að stuðla að því að fleiri stór verk­efni verði unn­in al­farið á Íslandi með til­heyr­andi tæki­fær­um fyr­ir ís­lenskt menn­ing­ar­líf.

Við höf­um öll unun af því að horfa á gott sjón­varps­efni og ekki skemm­ir fyr­ir ef það er ís­lenskt. Frjór jarðveg­ur fyr­ir sköp­un fleiri gæðasjón­varpsþátta og -kvik­mynda hér á landi er svo sann­ar­lega fyr­ir hendi – og hann á aðeins eft­ir að verða frjórri. Í raun er ís­lensk kvik­mynda­gerð er eins og flæðilína sem held­ur áfram að gefa og gefa svo ég noti orðfæri í anda Ver­búðar­inn­ar. Ég er því sann­færð um að fleiri Ver­búðir, eða þeirra lík­ar, muni líta dags­ins ljós – okk­ur öll­um til yndis­auka.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. janúar 2022.