Ríkisstjórnin hefur mætt niðursveiflunni sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur valdið með nauðsynlegum og markvissum aðgerðum sem styðja við fólk og fyrirtæki. Stefnan er skýr; að skapa samfélag sem er í eins miklu jafnvægi og hægt er miðað við ytri aðstæður hverju sinni.
Baráttan við veiruna hefur óhjákvæmilega reynt á þolrif og seiglu allra en með góðri samvinnu hefur árangurinn skilað sér í fækkun innanlandssmita. Stöðugt endurmat á aðgerðum er nauðsynlegt í þeirri von að ekki verði verulegt bakslag. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að því að samfélagið geti verið í eins eðlilegu horfi og kostur er.
Arðbærar fjárfestingar
Til lengri tíma er stóra myndin að efla fjárfestingar sem mynda hagvöxt til framtíðar og skapa atvinnu. Fjárfestingarnar í innviðum eru arðbærar og bæta upp samdrátt í hagkerfinu. Skýrt dæmi um slík áform ríkisstjórnarinnar eru í nýsamþykktri samgönguáætlun. Aldrei áður hefur eins miklum fjármunum verið varið til arðbærra verkefna og er hlutfall framlaga af landsframleiðsluspá fyrir 2020 komið upp í 1,4%. Ávinningurinn mun skila sér strax, ný störf verða til og samfélagið verður mun betur í stakk búið þegar tímabundið veiruástand er yfirstaðið og ferðaþjónustan tekur við sér á ný.
8.700 störf
Nýsamþykkt samgönguáætlun gerir ráð fyrir rúmlega 640 milljarða ríkisframlagi en heildarumfang allra samgönguframkvæmda með samvinnuverkefnum nemur um 900 milljörðum króna. Áætlunin er ein sú umfangsmesta sem samþykkt hefur verið og felur í sér mikilvæga uppbyggingu á eignum ríkisins. Áætlunin, sem er ein stærsta framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar, felur í sér 70% hækkun á framlagi til nýframkvæmda á þessu ári. Verkefnum er flýtt og fjölgað en við það skapast fjölmörg ný störf. Alls verða til 8.700 fjölbreytt störf á næstu fimm árum, frá hönnun til beinna framkvæmda.
Viðhaldsþörfin er mest í vegagerð sem á eftir að skila sér í greiðari og öruggari umferð og enn betri tengingum á milli byggða. Vegalengdir styttast, möguleikar fólks til að velja sér búsetu aukast og atvinnusvæði eflast. Meðal verkefna er að einbreiðum brúm á hringveginum verður fækkað úr 36 í 22 á næstu fimm árum. Til viðbótar þessu var í ár 6,5 milljörðum króna varið aukalega í samgönguframkvæmdir úr fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar.
Hafnir og innanlandsflugvellir fá umtalsvert meira fjármagn en hingað til svo hægt sé að mæta eðlilegum kröfum samfélagsins um grunnþjónustu og koma á móts við flutning aðfanga innan og milli landa. Aukin framlög eru til innanlandsflugvalla með áherslu á varaflugvelli. Þá eru mikil tækifæri í útflutningshöfnum norðan- og sunnanlands sem efla atvinnusvæðin og skapa störf.
Samvinnuverkefni
Forgangsröðun fjárfestingar í samgönguáætlun er skýr með áherslu á umferðaröryggi sem styður við arðsemi og efnahagslegan grænan vöxt. Hæfileg blanda af einka- og ríkisreknum verkefnum skilar sér til samfélagsins ef tilgangurinn er skýr. Sú hugmyndafræði var tekin lengra með samþykkt Alþingis á frumvarpi um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum (PPP). Nýju lögin heimila samvinnu á milli einkaaðila og ríkis að fara í tiltekin samgöngumannvirki. Ábatinn er aukin skilvirkni í vegagerð og býr til aukið svigrúm ríkisins til að sinna nauðsynlegri grunnþjónustu samfélagsins. Samgönguverkefni henta vel til samvinnuverkefna og þegar áhugi innlendra fjárfesta er til staðar er óskynsamlegt annað en að velja þessa leið.
Verkefnin eru sem fyrr vel skilgreind og fyrirfram ákveðin og er brú yfir Hornafjarðarfljót fullhönnuð og að verða klár fyrir útboð. Ný brú yfir Ölfusá, nýr vegur yfir Öxi, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut eru þar næst á dagskrá. Mikilvæg þekking og reynsla byggist upp í þessum verkefnum þar sem þverfagleg þekking verður til í hönnun, hjá fjárfestum, verktökum og hinu opinbera.
Fullyrða má að aukning í nýframkvæmdum á næstu árum í samgöngum sé fordæmalaus – svo að notað sé orðið sem hefur verið á allra vörum í ár. Það grundvallast annars vegar á metnaðarfullri framtíðarsýn í fimmtán ára samgönguáætlun og á viðbótarfjármagni sem lagt var í samgönguframkvæmdir úr fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2020.