Sannkölluð stórtíðindi voru opinberuð fyrir tungumálið okkar, íslenskuna, í vikunni þegar bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI kynnti að hún hefði verið valin í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Þetta er stór áfangi fyrir tungumálið okkar en um er að ræða stærsta gervigreindarnet heims sem nú er fínþjálfað til þess að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Tæknin byggir á ógrynni texta af vefnum sem gervigreindin er þjálfuð á til þess að rýna, greina og byggja svör sín á og nýta í textasmið og samtalstæki sem notendur geta spurt næstum hvers sem er.
Það er ánægjulegt að sjá árangur vinnu undanfarinna ára vera að skila sér með hætti sem þessum en stjórnvöld hafa fjárfest myndarlega í málefnum tungumálsins; til að mynda hefur yfir tveimur milljörðum króna verið varið til máltækniverkefnisáætlunar stjórnvalda, sem snýr að því að byggja upp tæknilausnir til þess að nýta tungumálið okkar í þeim tækniheimi sem við búum í. Um 60 sérfræðingar hafa unnið af miklum metnaði til þess að koma þessum tæknilausnum á koppinn og gera íslenskuna í stakk búna svo hægt sé að nýta hana í snjalltækjum.
Fyrrnefnd tímamót eru afrakstur af heimsókn sendinefndar forseta Íslands og ráðherra í maí sl. þar sem við heimsóttum meðal annars höfuðstöðvar OpenAI í San Francisco. Fyrirtækið er leiðandi í alþjóðlegri umræðu um opið aðgengi að gervigreindartækni og ábyrga og örugga þróun hennar fyrir heimsbyggðina alla. Það sem vakti meðal annars aðdáun ytra var sú staðreynd að Ísland kemur með heilmikið að borðinu í samtali og samstarfi við erlend stórfyrirtæki á sviði gervigreindar. Íslenskar kjarnalausnir á sviðum máltækni eru aðgengilegar í opnum aðgangi, m.a. fyrir frumkvöðla, fólk í nýsköpun og fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri sem geta þróað notendalausnir út frá þeim. Það má fullyrða að afrakstur þessarar vinnu sé forskort fyrir íslenskuna miðað við mörg önnur tungumál í síbreytilegum heimi tækninnar.
Ég er virkilega stolt yfir þeim árangri sem við erum að ná fyrir íslenskuna, hryggjarstykkið í sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að þessum spennandi verkefnum, ekki síst forseta Íslands sem lagt hefur sitt lóð á vogarskálarnar við að tala máli íslenskunnar í alþjóðlegu samhengi – og annarra tungumála fámennari ríkja – samstarfsfólki hjá Almannarómi og SÍM-hópnum, og sjálfboðaliðunum sem fyrir tilstilli máltæknifyrirtækisins Miðeindar komu að þjálfun gervigreindarinnar síðustu misserin. Við ætlum að tryggja bjarta framtíð fyrir íslenskuna og búa þannig um hnútana að sagan verði áfram skrifuð á íslensku um ókomna tíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023.