Categories
Greinar

Framsókn boðar vaxtarstyrki

Deila grein

06/09/2021

Framsókn boðar vaxtarstyrki

Við lifum við þann munað hér á Íslandi að hágæða íþrótta- og tómstundastarf er okkur tiltölulega aðgengilegt. Kostir þess að einstaklingar stundi skipulagt frístundastarf eru óumdeilanlegir og þá sérstaklega þegar það kemur að börnum og ungmennum. Skipulagt frístundastarf hefur almennt jákvæð áhrif á börn og ungmenni, bæði á andlega og líkamlega heilsu. Að auki hefur forvarnagildi iðkunar frístunda verið margsannað. Þau börn og ungmenni sem stunda skipulagt frístundastarf eru ólíklegri til að sýna óæskilega hegðun eða neyta vímugjafa.

Styrkir hafa virkað
Hér á landi hafa ríki og sveitarfélög landsins lengi verið í virku samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins með það markmið að börn hafi jöfn tækifæri til taka þátt í heilbrigðu og uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Ein viðurkennd aðgerð í átt að því markmiði er frístundastyrkur. Mörg sveitarfélög veita ákveðna upphæð í frístundastyrk til fjölskyldna, sem hægt er að nýta til að niðurgreiða hvaða skipulagða íþrótta- og tómstundaiðkun sem barnið hefur áhuga á að stunda. Þetta hefur vissulega leitt til aukningar á íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna innan þeirra sveitarfélaga. Tölfræðin segir okkur að börn og ungmenni sem iðka íþrótt eða tómstund fara fjölgandi samhliða notkunar á frístundastyrk. Mörg börn iðka jafnvel fleiri en eina íþrótt eða tómstund á sama tíma. Þessi þróun sýnir að styrkur sem þessi virkar, en betur má ef duga skal.

Betur má ef duga skal – Vaxtarstyrkir
Enn eru fjölskyldur sem sjá sig ekki færa fjárhagslega til að greiða fyrir frístundaiðkun barna sinna. Það er markmið Framsóknar að tryggja það að öll börn og ungmenni hafi tækifæri til að stunda þá íþrótt eða tómstund sem þau hafa áhuga á, með meðfylgjandi forvarnar- og lýðheilsusjónarmið í huga. Það að öll börn geti stundað skipulagt frístundastarf er samfélaginu öllu til góða.
Til að ná þessu markmiði vill Framsókn að ríkið greiði árlega 60 þúsund króna vaxtarstyrk til fjölskyldna fyrir hvert barn. Sem dæmi má benda á að það eru 180 þúsund krónur fyrir þriggja barna fjölskyldu. Með þessu er hægt að stuðla að jafnari tækifærum til frístundaiðkunar óháð efnahag.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Höfundur er frambjóðandi í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birist fyrst á sunnlenska.is 2. september 2021.