Categories
Greinar

Frelsi til heilbrigðis

Deila grein

12/11/2018

Frelsi til heilbrigðis

Ólafur Stephensen skrifar líflega grein í Morgunblað föstudagsins þar sem hann finnur að ýmsu því sem ég nefndi í grein minni í blaðinu á fimmtudag og varaði fólk við því, meðal annars, að taka of mikið mark á mér sem dýralækni. Munurinn á okkur Ólafi liggur þegar kemur að dýralækningum og dýraheilbrigði ekki síst í því að ég er dýralæknir en hann ekki. Er þá þessum hluta rökræðunnar lokið.

Einstök staða Íslands

Það sem einna helst einkennir líf, hvort sem það er mannlíf eða dýralíf, er að það þróast. Þetta á ekki einungis við um það að lífverur eldist, heldur einnig það að við vitkumst og þróumst í hugsun eftir því sem tíminn líður. Fyrir nokkrum áratugum mæltu amerískir læknar með einstaka sígarettutegundum í auglýsingum en sú aukabúgrein lækna er líklega úr sögunni. Sykurinn sem amma mín taldi meinhollan hefur einnig hrunið niður vinsældalista þeirra sem leggja áherslu á góða heilsu. : Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í. Ég mæli því ekki með því við Ólaf og verslunina að fara í slagsmál við lækna og dýralækna þegar kemur að heilbrigði manna og dýra á Íslandi.

Hrátt kjöt er ekki eins og hvert annað vörunúmer

Sá slagur sem Ólafur og verslunin eru í og hafa náð nokkrum árangri í er á sviði frjálsrar verslunar. Þá er bara spurningin sú hvort kjörbúðin sé rétti vettvangurinn fyrir matarslag. Hvort frjáls verslun með hrátt kjöt sé bara eins og hvert annað bókhaldsnúmer þegar við blasir á þeim mörkuðum sem verið er að opna að ástandið er bara alls ekki nógu gott. Og langt frá því.

Vakning um allan heim

EES-samningurinn er Íslendingum gríðarlega mikilvægur, ekki síst þegar kemur að hagsmunum sjávarútvegsins. Það að bera saman íslenskar sjávarafurðir og afurðir verksmiðjubúa meginlandsins er þó eins og að bera saman tómata og ananas. Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES-samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum.

Tökum ekki áhættuna

Það erfiða við þetta mál er ekki síst það að ef við leyfum tímanum að leiða í ljós hvort það hafi áhrif á lýðheilsu Íslendinga að flytja inn hrátt kjöt þá verður okkur í Framsókn engin fró í því að standa upp eftir 20 ár og segja við Ólaf og félaga: „I told you so“.

Fyrir áhugasama þá er rétt að benda þeim á að gúggla nöfn veirufræðingsins Margrétar Guðnadóttur heitinnar og Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, og sjá hvað greinar þeirra hafa að segja um innflutning á hráu kjöti og sýklalyfjaónæmi. Því þótt þau séu ekki dýralæknar þá hafa þau mikið til málanna að leggja.

Útdregið: Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.