Categories
Greinar

Fyrir 20 árum varð til Reykjavíkurlisti…

Deila grein

17/01/2014

Fyrir 20 árum varð til Reykjavíkurlisti…

sigrunmagnusdottirFyrir tuttugu árum síðan var mikið skeggrætt og unnið varðandi framboðsmál til borgarstjórnar. Flokkarnir héldu fundi saman og einnig hver í sínum ranni. Nánast á hverjum degi var umfjöllun í Morgunblaðinu um gang mála. Um miðjan janúar 1994 var tilkynnt að flokkarnir, sem voru í stjórnarandstöðu við Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, hefðu ákveðið að bjóða fram sameiginlegan framboðslista til borgarstjórnar.

Reykjavíkurlistinn var skapaður af Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og samtökum um Kvennalista á jafnréttisgrunni. Einn aðalsamningamaður framsóknarmanna var Valdimar Kr. Jónsson prófessor. Hann var einlægur stuðningsmaður þess að koma á sameiginlegum framboðslista og vann mikið og gott starf með fulltrúum hinna flokkanna.

Í mínum huga er sennilega sá útgangspunktur í starfinu sem mest situr eftir – að yfir vötnum sveif andblær nýrrar hugsunar varðandi jafnvægi/jafnrétti í samskiptum karla og kvenna sem og milli flokka. Konur voru þar ekki síður ráðandi en karlar. Önnur nýjung var sú að setja borgarstjóraefnið í áttunda sætið. Í heild var listinn skipaður vönduðu samhentu fólki, sem hafði reynslu af samstarfi í borgarstjórn.

Starfið í R-listanum og árangurinn er mér hugleikinn. Mér hefur stundum sárnað þegar fulltrúar samstarfsflokkanna vilja í seinni tíð alfarið eigna sér framboðið og ganga svo langt að setja samasemmerki á milli Reykjavíkurlistans og flokks sem varð til síðar á landsvísu. Reyndar raskaðist hið góða samstarf og jafnvægi sem var innan listans einmitt við þá gjörð.

Framsóknarmenn eiga, ekki síður en aðrir, þátt í samstöðu listans sem og uppbyggingunni í þeim málaflokkum sem við settum á oddinn í kosningabaráttunni 1994 um skóla og leikskóla.

Starf í sveitarstjórn er afar gefandi og skemmtilegt. Þetta er starf sem ekki síður á að höfða til kvenna að mínu mati. Ég hvet því konur til að taka þátt í mótun nærumhverfisins og gefa kost á sér á lista til sveitarstjórnar. Reynsla af starfi í sveitarstjórn kemur til góða sama hvað fólk tekur sér fyrir hendur síðar á lífsleiðinni. Sennilega er sveitarstjórnarþátttaka einn besti skóli sem unnt er að sækja í mannlegum samskiptum sem og þekkingu á mótun samfélags.

 

 

SIGRÚN MAGNÚSDÓTTIR

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. janúar 2014.)