Oft og tíðum eru fjölmörg mál sem bíða úrlausnar mennta- og menningarmálaráðherra, enda sinnir ráðuneytið mikilvægum málaflokkum. Í störfum mínum sem ráðherra legg ég ætíð áherslu á stóru samfélagsmyndina. Ég velti því fyrir mér hvernig samfélag við viljum sem þjóð og hvernig framtíð við óskum okkur.
Stóra myndin er sú að við erum samfélag sem leggur sig fram við að veita framúrskarandi menntun. Rannsóknir sýna okkur t.d. að góður námsorðaforði og hugtakaskilningur, ályktunarhæfni, ánægja af lestri og fjölbreytni lesefnis vega mjög þungt í því að nemendur nái tökum á námsefni. Við vitum það einnig að góður kennari skiptir sköpum, og því tel ég kennara sinna einu mikilvægasta starfinu í okkar samfélagi. Eitt það fyrsta sem blasti við mér í mennta- og menningarmálaráðuneytinu var yfirvofandi kennaraskortur. Þess vegna er mikil áhersla lögð á kennaramenntun og nýliðun í nýrri menntastefnu sem samþykkt var nýlega á Alþingi.
Við höfum þegar markað stefnuna og sjáum árangurinn strax. Ný lög um menntun og hæfi kennara og skólastjórnenda hafa orðið að veruleika. Við höfum ráðist í umfangsmiklar og markvissar aðgerðir til að fjölga kennurum, t.d. með því að bjóða nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Annað sem við gerðum var að bjóða nemendum á lokaári að sækja um námsstyrk sem gæti skapað hvata til að klára námið. Eftir að þetta átaksverkefni hófst árið 2018 fjölgaði umsóknum í kennaranám á grunn- og meistarastigi árin 2018 og 2019 um 454 umsóknir. Fjölgunin hélt áfram árin 2019 og 2020 en þá sóttu 585 fleiri um nám. Tölurnar sýna algjöran viðsnúning. Heildarfjölgun umsókna frá árinu 2018 er 153%. Markvissar aðgerðir skila árangri til framtíðar.
Þessi þróun er einstaklega ánægjuleg. Ég fagna því á hverjum degi að við erum skrefi nær því að ná markmiðum okkar um framúrskarandi menntakerfi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl 2021.