Categories
Greinar

Halldór Kiljan Laxness í 120 ár

Deila grein

23/04/2022

Halldór Kiljan Laxness í 120 ár

120 ár eru frá því að Hall­dór Kilj­an Lax­ness fædd­ist í Reykja­vík 23. apríl árið 1902 og því fögn­um við. Til að und­ir­búa þau tíma­mót las ég bók Hall­dórs Guðmunds­son­ar: Hall­dór Lax­ness ævi­saga. Þessi bók er stór­virki og fjall­ar um ævi skálds­ins og menn­ing­ar- og stjórn­mála­sögu Íslands, Evr­ópu og Banda­ríkj­anna á 20. öld. Bók­in grein­ir frá bernsku Hall­dórs, náms­ár­um, dvöl hans í Kaup­manna­höfn, Taormínu, Hollywood, sam­skipt­um hans við helstu lista- og stjórn­mála­menn þjóðar­inn­ar, verk­um hans og svo hvernig átak­an­leg heila­bil­un­in náði und­ir­tök­un­um í lok­in. Saga Hall­dórs er ald­ar­speg­ill síðustu ald­ar.

Skáldið

Fyrsta skáld­saga Hall­dórs, Barn nátt­úr­unn­ar, kom út haustið 1919 þegar höf­und­ur­inn var aðeins 17 ára gam­all! Sag­an vakti at­hygli og í Alþýðublaðinu sagði m.a.: „Og hver veit nema að Hall­dór frá Lax­nesi eigi eft­ir að verða óska­barn ís­lensku þjóðar­inn­ar.“ Upp frá þessu sendi Hall­dór frá sér bók nán­ast á hverju ári í yfir sex ára­tugi. Af­köst hans voru mik­ill og skrifaði hann fjölda skáld­sagna, leik­rita, kvæða, smá­sagna­safna og end­ur­minn­inga­bóka og gaf auk þess út mörg greina­söfn og rit­gerðir. Kunn­ustu bók­mennta­verk Hall­dórs eru skáld­sög­urn­ar; Salka Valka, Sjálf­stætt fólk, Heims­ljós, Íslands­klukk­an og Gerpla, og raun­ar mætti telja upp mun fleiri. Árið 1955 hlaut Hall­dór Nó­bels­verðlaun­in í bók­mennt­um, fyrst­ur Íslend­inga, fyr­ir sagna­skáld­skap sinn sem end­ur­nýjað hafði stór­brotna ís­lenska frá­sagn­arlist. Verðlaun­in vöktu mikla at­hygli á verk­um Hall­dórs er­lend­is og hafa bæk­ur hans komið út á yfir fjöru­tíu tungu­mál­um um víða ver­öld og út­gáf­urn­ar eru yfir 500 tals­ins!

Per­són­an Hall­dór

Hall­dór var um­deild­ur vegna skrifa sinna og skoðana. Fylgispekt hans við Sov­ét­rík­in og þá hug­mynda­fræði er rétti­lega mest gagn­rýnd og eld­ist einkar illa. Í Skálda­tíma, sem kom út árið 1963, ger­ir Hall­dór til­raun til að gera þetta tíma­bil upp. Ýmsum fylgd­ar­mönn­um hans mis­líkaði mjög hvernig hann skrifaði um Sov­ét­rík­in en öðrum að hann hefði getað gengið lengra. Það mál verður ekki krufið hér enda erum við að fagna af­rek­um Nó­bels­skálds­ins. Að mínu mati eru það ekki aðeins skáld­verk Hall­dórs sem eru ald­ar­speg­ill ís­lensku þjóðar­inn­ar held­ur líka ævi hans sjálfs. Hann fæðist á tíma þegar Íslend­ing­ar eru fá­tæk þjóð og þegar hann kveður er heimalandið orðið eitt far­sæl­asta ríki ver­ald­ar­inn­ar. Umbreyt­ing­arn­ar eru gríðarleg­ar á þessu stuttu tíma­bili og eng­an skyldi undra að mik­il hug­mynda­fræðilega átök hafi átt sér stað á Íslandi. Eitt af því sem hef­ur heillað mig við ævi Hall­dórs er hversu mikið hug­rekki hann sýndi við að til­einka sér stefn­ur og strauma er­lend­is. Ung­ur sigldi hann til Kaup­manna­hafn­ar, dvaldi á Ítal­íu, hann fór til Hollywood til að kynna sér allt um hinn vax­andi kvik­myndaiðnað, var um­hverf­is- og húsafriðun­ar­sinni. Hann var á und­an sinni samtíð og án efa hef­ur þetta gert Hall­dór að þeim heims­borg­ara sem hann var en líka orðið til þess að hann sá land sitt og sögu í öðru ljósi.

Staf­setn­inga­stríð

Meðan seinni heims­styrj­öld­in geisaði háðu Íslend­ing­ar stríð um staf­setn­ingu. Frétt birt­ist í Vísi í októ­ber 1941 um vænt­an­leg­ar bæk­ur frá Vík­ingsprenti, þar sem áformað var að gefa Íslend­inga­sög­urn­ar út í nýrri út­gáfu, þar sem text­inn yrði með nú­tímastaf­setn­ingu og ætt­ar­tölu­langlok­um yrði sleppt. Til­kynnt var að Lax­dæla yrði fyrsta bók­in í flokkn­um. Að þess­ari út­gáfu stóðu þeir Ragn­ar Jóns­son – kennd­ur við Smára, Stefán Ögmunds­son og Hall­dór K. Lax­ness. Upp hófst hið svo­kallað staf­setn­inga­stríð. Jón­as Jóns­son frá Hriflu var al­farið á móti þess­ari út­gáfu en hafði af­rekað það að gjör­bylta mennta­kerf­inu, stofna Rík­is­út­varpið og leggja drög að stofn­un Þjóðleik­húss­ins. Jón­as taldi að Alþingi yrði að koma í veg fyr­ir að dýr­grip­ir þjóðar­inn­ar, forn­rit­in, væru dreg­in niður í svaðið, eins og hann orðaði það á þingi. Mikl­ar deil­ur ríktu um út­gáf­una í hart­nær tvö ár, höfðað var mál gegn út­gáf­unni og lyktaði með því að Hæstirétt­ur batt enda á staf­setn­ing­ar­stríðið í júní 1943 þegar þre­menn­ing­arn­ir voru sýknaðir, þar sem dóm­ur­inn komst að þeirri niður­stöðu að forn­rita­lög­in brytu í bága við stjórn­ar­skrána. Vegna þess­ara deilna end­ur­nýjaði Hall­dór kynni sín við forn­bók­mennt­irn­ar enn frek­ar næstu árin og afrakst­ur þess, Gerpla, kom út árið 1952.

Ný sókn fyr­ir forn­bók­mennt­ir

En af hverju er ég að rifja upp þessa sögu og hvers vegna þykir mér hún merki­leg? Sag­an er merki­leg vegna þess að þarna voru í stafni helstu for­ystu­menn þjóðar­inn­ar og höfðu sterka skoðun á tungu­mál­inu og menn­ing­ar­arf­in­um. Ég tel að okk­ar kyn­slóð skuldi fyrri kyn­slóðum að við ger­um forn­bók­mennt­un­um betri skil og fær­um þær nær unga fólk­inu. Ég tel að það eigi að end­urút­gefa Íslend­inga­sög­urn­ar með það að mark­miði að ein­falda aðgengi að þeim. Sög­urn­ar eru okk­ar arf­leifð og eru stór­skemmti­leg­ar. Hins veg­ar er það því miður svo að unga kyn­slóðin á sí­fellt erfiðara með nálg­ast inn­takið. Eitt af því sem ég hef dáðst að und­an­far­in ár er end­ur­sögn Kristjáns Guðmunds­son­ar á Grett­is sögu og mynd­lýs­ing­ar Mar­grét­ar Ein­ars­dótt­ur Lax­ness. Það sama má segja um end­ur­sögn Bryn­hild­ar Þór­ar­ins­dótt­ur á Eg­ils sögu, Njálu og Lax­dælu, end­ur­sögn Ein­ars Kára­son­ar á sögu Grett­is og Emblu Ýrar Báru­dótt­ur á sög­um úr Njálu. Eins hef­ur Þór­ar­inn Eld­járn end­ur­samið Há­va­mál Snorra-Eddu fyr­ir börn. Ég hvet höf­unda okk­ar ein­dregið til að halda áfram á þess­ari braut og gera miklu meira af því að nú­tíma­væða forn­bók­mennt­irn­ar okk­ar fyr­ir kyn­slóðir nýrra les­enda. Hollywood hef­ur gert góða hluti með Mar­vel-mynd­un­um sín­um um Þór! Ég full­yrði að ein besta af­mæl­is­gjöf til nó­b­el­skálds­ins væri að við gerðum átak í þessa veru og tryggðum með því enn betra aðgengi barna að menn­ing­ar­arf­in­um. Öll börn ættu að þekkja Freyju, Þór og Óðin!

Að mínu mati stend­ur þó eitt stend­ur upp úr þegar ævi Hall­dórs er skoðuð; það at­læti og ást sem hann hlaut sem ung­ur dreng­ur frá for­eldr­um sín­um og ömmu. Þau áttuðu sig fljótt á því að hann var hæfi­leika­rík­ur og þau gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, þó efna­lít­il, til að stuðla að fram­göngu hans og að Hall­dór gæti látið drauma sína ræt­ast – sem um leið urðu draum­ar þjóðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. apríl 2022.