Náttúruhamfarir hafa alla tíð reynst Íslendingum áskorun og valdið umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni, en þar nægir að nefna aðventustorminn í desember 2019, snjóflóð á Flateyri og aurflóð á Seyðisfirði. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Náttúruhamfaratryggingar Íslands urðu 14 stórtjón á árinu 2020, en frá árinu 1987 hafa slík tjón verið að meðaltali sjö á ári.
Samræmi í tryggingarvernd
Mikilvægt er að samræmis gæti í tryggingarvernd vegna náttúruhamfara og að öll úrvinnsla í kjölfar hamfara sé eins skilvirk og sanngjörn og mögulegt er. Náttúruhamfarir geta ógnað tilvist heilu samfélaganna og tjón af þeirra völdum hafa oft reynst einstaklingum, fyrirtækjum eða annarri starfsemi ofviða.
Farið hefur verið í margvíslegar aðgerðir til að koma á samtryggingu og verjast náttúruhamförum hér á landi. Má þar nefna viðfangsefni Náttúruhamfaratryggingar Íslands, Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóðs, þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga einstakra atburða, ásamt lögboðnum og valfrjálsum tryggingum.
En betur má ef duga skal. Mikil reynsla hefur safnast upp við úrvinnslu tjóna, sem mikilvægt er að læra af og nýta til að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa komið fram ýmsar áskoranir sem ekki hafa endilega verið til umræðu áður, ásamt öðrum sem vakið hefur verið máls á áður. Þar má nefna ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnutækja og atvinnuhúsnæðis.
Mikilvægi úttektar
Ljóst er að tilefni er til þess að gerð verði úttekt á þessum málum. Í slíkri úttekt þyrfti að greina hverju helst er ábótavant í tryggingarvernd og úrvinnslu tjóna og leita leiða til úrbóta. Meta þyrfti samræmi í viðbrögðum, möguleg göt í kerfinu, hvað ekki fæst bætt og hvers vegna, og á hverja kostnaður vegna hreinsunaraðgerða og annarra verkefna í kjölfar hamfara fellur. Markmiðið væri að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í úrvinnslu tjóna vegna náttúruhamfara ásamt því að finna leiðir til að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til þeirra sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum. Þá er mikilvægt að upplýsingar um tjón á fasteignum séu skráðar skipulega, þótt farið sé í viðgerðir.
Í vor lagði undirrituð fram þingsályktunartillögu ásamt fleiri þingmönnum Framsóknar, um að ríkið léti framkvæma slíka úttekt, tillagan hlaut ekki afgreiðslu á Alþingi. Ég mun áfram leggja mikla áherslu á að slík úttekt verði gerð, enda löngu tímabær. Það þarf að nýta uppsafnaða þekkingu og reynslu til frekari framfara.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar og frambjóðandi flokksins í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. júní 2021.