Categories
Greinar

Hamfarir og tryggingarvernd

Deila grein

28/06/2021

Hamfarir og tryggingarvernd

Nátt­úru­ham­far­ir hafa alla tíð reynst Íslend­ing­um áskor­un og valdið um­tals­verðu eigna- og rekstr­artjóni, en þar næg­ir að nefna aðventu­storm­inn í des­em­ber 2019, snjóflóð á Flat­eyri og aur­flóð á Seyðis­firði. Sam­kvæmt nýj­ustu árs­skýrslu Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands urðu 14 stór­tjón á ár­inu 2020, en frá ár­inu 1987 hafa slík tjón verið að meðaltali sjö á ári.

Sam­ræmi í trygg­ing­ar­vernd

Mik­il­vægt er að sam­ræm­is gæti í trygg­ing­ar­vernd vegna nátt­úru­ham­fara og að öll úr­vinnsla í kjöl­far ham­fara sé eins skil­virk og sann­gjörn og mögu­legt er. Nátt­úru­ham­far­ir geta ógnað til­vist heilu sam­fé­lag­anna og tjón af þeirra völd­um hafa oft reynst ein­stak­ling­um, fyr­ir­tækj­um eða ann­arri starf­semi ofviða.

Farið hef­ur verið í marg­vís­leg­ar aðgerðir til að koma á sam­trygg­ingu og verj­ast nátt­úru­ham­förum hér á landi. Má þar nefna viðfangs­efni Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands, Of­an­flóðasjóðs og Bjargráðasjóðs, þróun verklags stjórn­valda í viðbrögðum og úr­vinnslu af­leiðinga ein­stakra at­b­urða, ásamt lög­boðnum og val­frjáls­um trygg­ing­um.

En bet­ur má ef duga skal. Mik­il reynsla hef­ur safn­ast upp við úr­vinnslu tjóna, sem mik­il­vægt er að læra af og nýta til að bæta vinnu­brögð. Eft­ir skriðuföll­in á Seyðis­firði hafa komið fram ýms­ar áskor­an­ir sem ekki hafa endi­lega verið til umræðu áður, ásamt öðrum sem vakið hef­ur verið máls á áður. Þar má nefna ósam­ræmi í bót­um til þeirra sem missa hús­næði sitt í ham­förum og þeirra sem þurfa að flytja úr hús­næði vegna hættu á ham­förum. Þá er margt óljóst varðandi vernd og trygg­ing­ar at­vinnu­lífs­ins, at­vinnu­tækja og at­vinnu­hús­næðis.

Mik­il­vægi út­tekt­ar

Ljóst er að til­efni er til þess að gerð verði út­tekt á þess­um mál­um. Í slíkri út­tekt þyrfti að greina hverju helst er ábóta­vant í trygg­ing­ar­vernd og úr­vinnslu tjóna og leita leiða til úr­bóta. Meta þyrfti sam­ræmi í viðbrögðum, mögu­leg göt í kerf­inu, hvað ekki fæst bætt og hvers vegna, og á hverja kostnaður vegna hreins­un­araðgerða og annarra verk­efna í kjöl­far ham­fara fell­ur. Mark­miðið væri að auka skil­virkni, jafn­ræði og sann­girni í úr­vinnslu tjóna vegna nátt­úru­ham­fara ásamt því að finna leiðir til að bæta upp­lýs­inga­gjöf og fræðslu til þeirra sem búa við nátt­úru­vá eða hafa lent í ham­förum. Þá er mik­il­vægt að upp­lýs­ing­ar um tjón á fast­eign­um séu skráðar skipu­lega, þótt farið sé í viðgerðir.

Í vor lagði und­ir­rituð fram þings­álykt­un­ar­til­lögu ásamt fleiri þing­mönn­um Fram­sókn­ar, um að ríkið léti fram­kvæma slíka út­tekt, til­lag­an hlaut ekki af­greiðslu á Alþingi. Ég mun áfram leggja mikla áherslu á að slík út­tekt verði gerð, enda löngu tíma­bær. Það þarf að nýta upp­safnaða þekk­ingu og reynslu til frek­ari fram­fara.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, alþingismaður Fram­sókn­ar og fram­bjóðandi flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. júní 2021.