Categories
Greinar

Heiðarleg skýrsla Hagfræðistofnunar

Deila grein

08/03/2014

Heiðarleg skýrsla Hagfræðistofnunar

Sigrún MagnúsdóttirÍ aðdraganda síðustu kosninga ályktuðu flokksþing Framsóknarflokksins og landsfundur Sjálfstæðisflokksins mjög ákveðið að aðild að ESB samræmdist ekki hagsmunum Íslands. Þessar samkomur hafa æðsta vald um stefnumótun viðkomandi flokka og ber kjörnum fulltrúum þeirra að framkvæma stefnuna eftir því sem þeim er unnt til næsta flokksþings. Í kosningunum í fyrravor unnu þessir flokkar báðir góða sigra en fráfarandi stjórnarflokkar biðu afhroð. Sigurvegararnir mynduðu ríkisstjórn svo sem vænta mátti og í málefnasamningi hennar var ákveðið að láta gera úttekt á stöðu Evrópumála. Í framhaldi af þeirri úttekt yrðu næstu skref ákveðin, hvað varðaði aðlögunarferli Íslands að ESB. Þó yrði ekki haldið áfram aðlögunarviðræðum, sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði frestað, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Utanríkisráðherra fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að annast framangreinda úttekt. Það var eðlilegt val því ekki eru margar stofnanir hérlendis líklegri til að vera hafnar yfir gagnrýni og til að skila trúverðugri niðurstöðu.

Vönduð skýrsla

Nú hefur Hagfræðistofnun skilað ítarlegri skýrslu um stöðu mála hjá ESB og horfur í aðlögunarviðræðum Íslendinga og er skýrslan aðgengileg á netinu. Í stuttu máli er það ljóst að undanþágur frá reglum ESB eru ekki fáanlegar nema þá tímabundnar. Enda segir orðrétt í skýrslunni (bls. 65): »Í samanteknu máli má því segja að erfitt geti reynst að ná fram varanlegum undanþágum frá reglum sambandsréttar í þeirri merkingu sem hér er lögð í það orðasamband. Það á sérstaklega við á sviði fiskveiða og landbúnaðarmála þar sem stefnan er sameiginleg og Evrópusambandið fer að mestu leyti eitt með lagasetningarvald.«

Óhætt er að fullyrða að skýrslan er vönduð, varfærin og mjög trúverðug, greinir stöðuna af hófsemi en með sterkum rökum. Þrátt fyrir vikulanga umræðu á Alþingi, þar sem stjórnarandstaðan beitti miklu málþófi, gat hún ekki borið neinar niðurstöður skýrslunnar til baka.

500 ræður um fundarstjórn

Um 500 ræður voru fluttar undir liðnum fundarstjórn forseta. Það sjá það allir að einnar til tveggja mínútna innhlaup um fundarstjórn felur ekki í sér málefnalega uppbyggðar ræður um eitt höfuðmál íslenskra stjórnmála. Út á fundarstjórn forseta var ekkert að setja. Þetta var málþóf. Það var mjög leitt að vikan skyldi ekki nýtast betur í málefnalegar umræður um skýrslu Hagfræðistofnunar. Það er mikilvægt að finna leiðir til að kynna hana betur fyrir þjóðinni, vegna þess að skýrslan tekur af öll tvímæli um að það er rökrétt niðurstaða að hætta viðræðum við Evrópusambandið.

Undanþágur fást ekki

Það er þýðingarlaust að elta þann draum lengur, að okkur bjóðist viðunandi undanþágur eða sérlausnir vegna nauðsynja eða sérstöðu Íslands í frekari aðlögunarviðræðum. Það er því einboðið að draga til baka umsókn okkar að ESB eins og þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar kveður á um.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2014.)