Categories
Greinar

Heilbrigðiskerfið í forgang

Deila grein

03/12/2014

Heilbrigðiskerfið í forgang

Karl_SRGB_fyrir_vefHeilbrigðiskerfið okkar er ein mikilvægasta grunnstoð samfélagsins. Við erum öll sammála um það að niðurskurður síðari ára var alltof mikill og gekk nánast af heilbrigðiskerfinu dauðu. Grunnþjónustan skertist til muna og biðlistar lengdust. Laun lækna hafa nánast staðið í stað frá árinu 2008.

Hér þurfti að snúa við blaðinu.

Fjárlög þessa árs bera vitni um áherslubreytingar til batnaðar. Ríkisstjórnin setur heilbrigðiskerfið í forgang og hefur okkur sannarlega tekist að snúa við blaðinu. Fjárlög sýna það svart á hvítu. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga, sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, lækkar og þátttaka einstaklinga í lyfjakostnaði minnkar um 5%, með 150 milljóna króna aukinni greiðsluþátttöku ríkisins. Lyfjakostnaður sjúklinga lækkar jafnframt með lækkun efra þreps VSK úr 25,5% í 24%. Framlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri en á fjárlögum nú – frá stofnun spítalans – eða 49,4 milljarðar króna. Framlag vegna hönnunar nýs Landspítala hefur verið stóraukið um sem nemur 875 milljónum króna.

Sérstök framlög til rekstrar og stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana aukast um rúman 2,1 milljarð króna. Rekstrarframlög til heilbrigðismála almennt eru aukin, tækjakaup á landsbyggðinni um 100 milljónir króna, styrking á rekstrargrunni heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva um 100 milljónir króna og FSA um 50 milljónir króna.

Læknar eru í verkfalli, já. Það er skilningur fyrir því eftir langt fjársvelti. Samningaviðræður eru í gangi milli lækna og stjórnvalda. Vildum við að búið væri að semja? Já, auðvitað. Gætu viðræður gengið hraðar fyrir sig? Mögulega. En ferlið er flókið og að mörgu þarf að huga. Samningsniðurstaða er vissulega aðkallandi en mikilvægt er að sem flestir geti unað við hana og að almenn sátt ríki um niðurstöðuna.

Það er þreytandi að hlusta á endalausa neikvæðni ákveðinna aðila innan stjórnarandstöðunnar þegar kemur að jákvæðum hlutum, eins og stórauknum framlögum til Landspítalans. Hér ættu allir að vera sammála. Vissulega þarf að gera meira fyrir Landspítalann til að vinna upp uppsafnaðan vanda eftir gríðarlegan niðurskurð á síðasta kjörtímabili. Því neitar enginn. Enda er það stefna þessarar ríkisstjórnar að koma heilbrigðiskerfinu í það stand sem við viljum að það sé í. Slíkur viðsnúningur á sér ekki stað á einni nóttu. Það er langhlaup.

Karl Garðarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. desember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.