Categories
Forsíðuborði Greinar

Heimsókn 400 kvenleiðtoga víða að úr heiminum lýsir upp skammdegið

Deila grein

29/11/2017

Heimsókn 400 kvenleiðtoga víða að úr heiminum lýsir upp skammdegið

Allar þessar mögnuðu konur eru hingað komnar á vegum alþjóðlegra samtaka kvenleiðtoga (WPL) í þeim tilgangi að læra um þann árangur sem Íslendingar hafa náð í jafnréttismálum og til að læra hver af annarri. Þrátt fyrir að við Íslendingar eigum enn næg verkefni fyrir höndum við að auka jafnrétti í samfélaginu mælumst við ítrekað efst þjóða á alþjóðlegum mælikvörðum sem mæla jafnrétti kynjanna.
Árangurinn sem við höfum náð leggur okkur íbúum Íslands skyldur á herðar við að miðla þeim aðferðum og lausnum sem við höfum notað til að ná árangri. Jafnframt setur það gífurlega pressu á þjóðina að láta ekki staðar numið heldur halda áfram að leita lausna og finna leiðir til að auka jafnrétti.

Ég hlakka til að eiga samtöl við þessar konur og mun stolt geta sagt frá þeim aðferðum sem minn 100 ára flokkur, Framsóknarflokkurinn, notar til að vinna að jafnrétti í flokksstarfinu. Aðferðum sem skiluðu jafnrétti í þingflokknum, eftir kosningar 2017 þar sem konum fækkaði mikið á Alþingi. Ég mun líka deila persónulegri reynslu og læra af gestunum.

Í samtölum mínum við erlenda kvenleiðtoga hef ég áttað mig á því hversu mikil áhrif gott aðgengi að leikskólum í Íslandi hefur haft á þróun jafnréttis. Tilkoma fæðingar- og foreldraorlofs, þar sem feður fengu sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs árið 2000, er eitt af stóru skrefunum til jafnréttis á Íslandi. Nú er kominn tími á næsta skref, því eitt af brýnustu verkefnum dagsins í dag er einmitt að tryggja samfellu milli foreldraorlofs og leikskóladvalar.

Önnur stór áskorun er hversu kynskiptur íslenskur vinnumarkaður er, til að ná fram breytingum þarf að breyta viðhorfum og menningu og þar hefur skólakerfið mikilvægu hlutverki að gegna. Við þurfum að fjölga karlmönnum í umönnunarstörfum af öllu tagi og konum í iðn- og tæknigreinum. Viðfangsefnið er flókið og til að ná árangri þarf fjölþætta vinnu og það verður að vera eitt af því sem lagt er til grundvallar við mótun menntastefnu á Íslandi.

Áskoranirnar eru vissulega fleiri, eins og að fylgja eftir þeirri byltingu gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem sprottið hefur upp með aðstoð samfélagsmiðla síðustu árin.

Í jafnréttismálum þurfum við stöðugt að halda vöku okkur, á því sviði eru fjölmargar áskoranir og þá er heimsókn fremstu kvenleiðtoga heims svo sannarlega hvatning til að halda áfram á brautinni til jafnréttis.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2017